Öflugt starf á 10 ára afmælisári

Aðalfundur Björgunarsveitarinnar Lífsbjargar var haldinn í Von sunnudaginn 26. mars síðastliðinn. Á fundinum var farið yfir starf sveitarinnar á síðasta ári og einnig yfir starf unglingadeildarinnar Drekans. Núverandi stjórn bauð sig fram til áframhaldandi starfa og fékk hún kosningu til þess. Stjórnina skipa Halldór Sigurjónsson formaður, Hafrún Ævarsdóttir ritari, Ægir Þór Þórsson gjaldkeri, Hafþór Svansson varaformaður og Patryk Zolobow meðstjórnandi.

Þegar venjulegum aðalfundarstörfum var lokið ásamt kaffihléi var komið að liðnum önnur mál. Þar urðu miklar og góðar umræður en í vor nánar tiltekið þann 6. maí verður Björgunarsveitin Lífsbjörg tíu ára. Ætlunin er að halda upp á daginn og fór afmælisnefndin yfir það sem til stendur að gera í tilefni afmælisins. Góð mæting var á fundinn og greinilegt að starf Björgunarsveitarinnar Lífsbjargar er mikið og gott og félagsmenn áhugasamir um starfið.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli