Olísstöðin í Stykkishólmi seld til Ísborgar ehf

Í september s.l. heimilaði Samkeppniseftirlitið Högum kaup á Olís og fasteignafélaginu DGV hf. Margir muna eflaust að til að kaupin gengju eftir skuldbundu Hagar sig til að selja þrjár Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu, fimm eldsneytisstöðvar Olís og „dagvöruhluta“ verslunar Olís í Stykkishólmi eins og segir í frétt frá Samkeppniseftirlitinu.

Til stóð að fréttir um nýja eigendur Olís kæmu fram í nóvember en ferlið dróst þar til nýlega að Samkeppniseftirlitið samþykkti kaupendur af þessum verslunum og bensínstöðvum.

Bensínstöðvarnar voru seldar til Atlantsolíu en Bónusverslanirnar þrjár og dagvöruverslun Olís í Stykkishólmi voru seldar félaginu Ísborg ehf. Ástæða fyrir töfum í afgreiðslu eftirlitsins tengdust hæfi Ísborgar sem kaupanda.

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var sú eftir ítarlega skoðun að fyrirtækið uppfyllti ekki kröfur um hæfi kaupanda eignanna.

Gerðar voru lagfæringar á grundvelli athugsemda eftirlitsins hjá Ísborg og úrskurðaði Samkeppniseftirlitið í kjölfarið Ísborg sem hæfan kaupanda.

Eitt þeirra atriða sem Samkeppniseftirlitið og óháður kunnáttumaður tóku til skoðunar í meðferð málsins var hvort Ísborg teldist óháð Högum, einkum vegna tengsla fyrirsvarsmanna Ísborgar við óbeinan hluthafa í Högum. Það er mat eftirlitsins að umrædd tengsl ekki áhrif á viðskiptin sem nú hafa verið heimiluð.

Forsvarsmaður Ísborgar er Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson en hann var áður m.a. framkvæmdastjóri Sports Direct sportvöruverslunarinnar. Hann er sonur Ingibjargar Pálmadóttur athafnakonu, sem í gegnum félag sitt 365 miðlar hefur nýlega keypt 3% hlut í Högum og eiga félög tengd Ingibjörgu 2% hlut í Högum skv. Fréttablaðinu. Hagar er sagt í frétt Fréttablaðsins vera stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi. Hagar reka m.a. Bónusverslanirnar um land allt nema þær sem Ísborg hefur nú keypt.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort eða hvernig þessir viðskiptagerningar hafa áhrif á Olísverslunina í Stykkishólmi.

am/frettir@snaefellingar.is