Olísverslun seld í Stykkishólmi

Umræður um sameiningu Olíuverslunar Íslands-OLÍS og Haga sem m.a. rekur Bónus verslanirnar hafa verið allnokkrar í tengslum við rekstur Bónusversluna t.d. í 101 Reykjavík. Niðurstaða samkeppniseftirlitsins á samrunanum og sátt sem gerð var um samrunann hefur verið umræðuefnið og sýnist sitt hverjum. Í sáttinni er það gert að kröfu að rekstur dagvöruverslunar Olís í Stykkishólmi verði seld til að af samrunanum geti orðið. Kveður þar á um að selja skuli fasteignina sem Olís verslunin er í eða gera um hana leigusamning til amk 10 ára. Hagar munu halda áfram rekstri eldneytissölu og skv. heimildum Stykkishólms-Póstsins þá munu allar dælur verða sjálfsafgreiðsludælur ótengdar þjónustu verslunarinnar. Búið er að skrifa undir kaupsamning fyrir fasteignum og rekstri verslunarinnar sem er í skoðun hjá samkeppniseftirlitinu. Gert er ráð fyrir rekstri með sambærilegu sniði og verið hefurí versluninni. Niðurstöður Samkeppniseftirlitsins um hvort kaupsamningurinn um verslunarhluta Olís uppfylli skilyrðin, liggja fyrir í nóvember.

am/frettir@snaefellingar.is