Örfá sæti laus

Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri, Eva Guðbrandsdóttir, Páll M. Sveinsson Snæfell og Senid Kulas þjálfari.

 

Sagt hefur verið frá því hér á síðum Stykkishólms-Póstsins að undanförnu að nú standi yfir fjáröflun vegna sætakaupa í stúkuna við íþróttavöllinn. Að sögn Páls Margeirs fótboltafrömuðar hér í Stykkishólmi gengur vel að safna og hafa nánast öll fyrirtæki keypt sæti og fjölmargir einstaklingar. Sætafjöldinn verður um 300 og eru um 220 sæti nú þegar seld. Sætin eru væntanleg upp úr miðjum júlí og BB og synir hafa boðið ókeypis flutninga á þeim hingað vestur. Þá tekur við vinna sjálfboðaliða við uppsetningu á sætunum. Jakob Björgvin bæjarstjóri heilsaði upp á leikmenn að leik loknum nú í vikunni, var þess fullviss að íbúar tækju þessu verkefni fagnandi og leggðu því lið, það hefðu Hólmarar margsinnis sýnt í verki í samskonar verkefnum. Þetta myndi verða lyftistöng fyrir starfsemina sem fram fer á íþróttasvæðinu sem myndi nýtast Hólmurum og gestum í leik og starfi á svæðinu.

am/frettir@snaefellingar.is