Ósætti í Vestmannaeyjum og Vesturbyggð

Á meðan Herjólfur fer í slipp leysir Breiðafjarðarferjan Baldur af og sér um siglingar á milli Vestmannaeyja og Landeyjarhafnar. Til stóð að Baldur kæmi aftur á Breiðafjörðinn 21. maí nk. en komu hans mun seinka og kemur hann ekki fyrr en 26. maí. Er það vegna lengri viðgerðartíma Herjólfs.

Í tilkynningu frá Sæferðum kemur fram að Særún mun sigla daglega til Flateyjar þangað til að Baldur kemur aftur.

Óhætt er að segja að verulegt ósætti sé hjá íbúum Vestmannaeyja, sem og íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum með fyrirkomulagið.

Á vef Rikisútvarpsins birtist frétt 2. maí síðastliðinn þar sem vitnað er í Elliða Vignisson, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, þar sem hann taldi það „algjörlega óboðlegt” að fá ferju sem réði ekki við ölduhæð í Landeyjahöfn og væri ekki vottuð til að sigla til Þorlákshafnar. Baldur er ekki vottaður til úthafssiglinga, sem leiðin til Þorlákshafnar telst til.

Haldinn var fundur í Vestmannaeyjum um samgöngumál sem rúmlega 300 manns sóttu. Íbúar þar eru orðnir langþreyttir á óvissu í samgöngumálum en margar ferðir Baldur hafa fallið niður vegna veðurs og jafnvel hefur ferjan þurft að snúa til baka á ferð sinni.

Sem fyrr segir eru íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum einnig uggandi yfir stöðunni. Bæjarráð Vesturbyggðar mótmælti harðlega á fundi fyrr í mánuðinum ákvörðuninni að taka ferjuna úr áætlun með tilheyrandi röskun fyrir íbúa og atvinnulíf. Í bókuninni stendur:

„Sú ákvörðun að taka Baldur úr áætlun yfir Breiðafjörð og þar með setja ferðaþjónustu og þungaflutninga í uppnám er aðeins eitt lóð á vogarskálarnar í þeirri lítilsvirðingu sem íbúum og rekstraraðilum á sunnanverðum Vestfjörðum er sýnd þegar kemur að samgöngumálum.”

Þar kemur einnig fram að Baldur sé mikilvægur fyrir svæðið í heild því ekki er hægt að treysta á öruggar samgöngur í landi. Ekki þurfi mikið til að þungatkmarkanir séu settar á veg 60 sem er malarvegur að hluta. Það getur leitt til þess að flutningabílar komist hvorki til né frá svæðinu sem gæti þýtt glötun á verðmætum, s.s. fisk úr laxeldunum, en ferðum hefur fjölgað með tilkomu þeirra. Þá hafi ferðaþjónustuaðilar fundið fyrir ákvörðuninni þar sem ferðafólk hefur afbókað á gististöðum.

„Það er fyrir löngu kominn tími til að samgöngumálum á þessu svæði sé komið í lag svo hægt sé að treysta á öruggar samgöngur til og frá svæðinu. Á meðan að ekki er hægt að tryggja samgöngur á landi er ferjan Baldur lífæð þessa svæðis og því óásættanlegt að henni sé kippt úr umferð.”

Sem fyrr segir er von á Baldri aftur 26. maí.