Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Raddir ungs fólks skipta máli!

This slideshow requires JavaScript.

Í æskulýðslögum, 11. gr., segir að sveitarfélög skuli hlutast til um að stofnuð verði ungmaennaráð. Hlutverk ráðsins er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Á ráðstefnunni Evrópa unga fólksins sem haldin var um ungmennaráð í fyrra kom í ljós að aðeins 33 af 74 sveitarfélögum á Íslandi hafa virkt ungmennaráð. S.l. helgi var haldið Ungmennaþing Vesturlands á Laugum í Sælingsdal. Undirbúningur þingsins hófst s.l. vetur þegar ungmennin funduðu með öðrum ungmennaráðum m.a. á Selfossi og Akranesi. Þingið var vel heppnað en 8 ungmenni fóru úr Stykkishólmi á þingið. Þingmönnum NV-kjördæmis og sveitarstjórnarfólki á Vesturlandi var boðið á þingið og þáðu nokkrir sveitarstjórnarmenn boðið og mættu á laugardeginum.

Umræður voru góðar og að sögn heimildamanns Stykkishólms-Póstins var mjög áhugavert að hlýða á gesti frá Strandabyggð, en þar eiga ungmenni áheyrnarfulltrúa í öllum nefndum á vegum sveitarfélagsins utan velferðarnefndar. Umræðan snérist einnig um það að hlutverk ungmennaráða sé ekki einungis til ráðgjafar um málefni ungs fólks heldur snérist hlutverk þeirra ekki síður um að fjalla um málefni allra, almennt.

Félagsstarf á sviði íþrótta var ungmennunum tíðrætt um og þar sjá þau möguleika hér á Snæfellsnesi með samnýtingu skólaaksturs svo hægt verði að stunda íþróttaæfingar í næstu sveitarfélögum sem og hugsanlega annað félagslíf einnig.

Niðurstaða þingsins var sú að sett yrði á fót Ungmennaráð Vesturlands. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi komu að undirbúningi þingsins ásamt ungmennunum sjálfum á Vesturlandi.

am/frettir@snaefellingar.is / Myndir: Lúðvík Gunnarsson