Rannveig Magnúsdóttir ver doktorsritgerð í líffræði

Rannveig Magnúsdóttir
Rannveig Magnúsdóttir

Þriðjudaginn 15.október ver Rannveig Magnúsdóttir doktorsritgerð sína í líffræði. Ritgerðin ber heitið: Minkur (Neovison vison) á Íslandi: Fæðuval eftir kyni, búsvæðum, árstíðum og árum í ljósi umhverfis- og stofnstærðarbreytinga (e.American mink Neovison vison in Iceland: Diet by sex, habitat, season and years in the light of changing environment and population size).

Rannveig hefur unnið að doktorsverkefni sínu m.a. hér á Snæfellsnesi s.l. ár og notið aðstöðu Náttúrustofu Vesturlands.

Á vef HÍ segir m.a.:

Leiðbeinendur voru Páll Hersteinsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, Háskóla Íslands (lést 2011). Árni Einarsson, gestaprófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, Háskóla Íslands.Professor David W. Macdonald, WildCRU, Department of Zoology, University of Oxford og Professor Steve Rushton, School of Biology, Newcastle University.

Andmælendur eru Dr.Dorothee Ehrich, Department of Arctic and Marine Biology,  Tromsø University og Dr. Tommy Asferg, Department of Bioscience – Wildlife Ecology and Biodiversity, Aarhus University.

Eva Benediktsdóttir, deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar stjórnar athöfninni.

Rannveig lauk meistaranámi í líffræði árið 2005 frá Háskóla Íslands í samstarfi við Deakin háskóla í Ástralíu. Einnig lauk hún kvikmyndagerðarnámi frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2007. Rannveig hefur gegnt ýmsum störfum í gegnum tíðina og hefur m.a. starfað við rannsóknir á sjófuglum, mink og áströlsku ránpokadýri. Að auki hefur hún tekið þátt í gerð ýmissa kvikmynda og náttúrulífsmynda. Hún vann sjálfboðavinnu í dýragarðinum hans Steve Irwin í Ástralíu og hefur starfað fyrir ýmis félög, m.a. var hún formaður IAESTE (International Association for the Exchange of Students for Technical Experience) á Íslandi 2001-2002. Rannveig hefur frá barnsaldri spilað og sungið og hún hefur m.a. verið meðlimur í Blokkflautuhópnum, Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, skoskri danshljómsveit í Oxford og Söngsveitinni Fílharmóníu. Rannveig starfar nú hjá Landvernd og stýrir þar verkefnum um loftslagsbreytingar, vernd háhitasvæða og vistheimt.

Ágrip:

Minkur Neovison vison er tækifærissinnað rándýr, upprunnið í Norður-Ameríku og á meðal ágengustu dýrategunda í Evrópu. Fyrsta minkabúið á Íslandi var sett á laggirnar árið 1931 en minkar sluppu fljótlega úr haldi og hafði tegundin numið flest láglendissvæði á Íslandi árið 1975. Minkastofninn fór vaxandi þangað til um 2003 en eftir það minnkaði stofninn hratt. Markmið þessarar rannsóknar voru að kanna fæðuval minks á Íslandi m.t.t. kyns, árstíða og búsvæða og meta hvort breytingar hefðu orðið á því á árunum 2001-2009. Í því skyni var greint magainnihald og stöðugar samsætur í vöðva og beinum minka. Að auki voru breytingar á stærð minkastofnsins og fæðuvali settar í samhengi við loftslagsfyrirbrigði og breytingar á stærð refastofnsins.
Rannsóknir á magainnihaldi sýndu að kvendýr átu að jafnaði meira af fiski og minna af fuglum en karldýr. Þá var meiri kynjamunur á fæðuvalinu hjá minkum við sjó en ferskvatn. Á tímabilinu 2001-2009 urðu miklar breytingar í fæðu minks á Snæfellsnesi og merki um fæðuskort, sérstaklega hjá karldýrum. Helsta breytingin var að fuglum fækkaði í minkamögum þegar leið á tímabilið. Mælingar á stöðugum samsætum í vöðva og beinum, sem voru í meginatriðum í samræmi við greiningar á magainnihaldi, gefa til kynna hvaða áhrif breytingar í umhverfi sjávar geta haft upp fæðukeðjuna. Niðurstöðurnar bentu til fæðuskorts hjá steggjum við sjó auk þess sem hlutfall hafrænnar fæðu minnkaði marktækt hjá karldýrum á ferskvatnsbúsvæðum eftir því sem leið á tímabilið. Breytingar á stöðugum samsætum í vefjum minka benda því til að breytingar á umhverfi sjávar hafi átt þátt í þeirri fækkun minka sem orðið hefur á landinu eftir árið 2003.
Síðustu tvo áratugina hafa sveiflur í loftslagsfyrirbrigðunum North Atlantic Oscillation, Sub-Polar Gyre og Atlantic Multidecadal Oscillation útskýrt 34-52% af breytileika í vaxtarhraða minkastofnsins, með 3-4 ára seinkun. Svo virðist sem heitur og saltur sjór ásamt mildum og blautum vetrum hafi haft neikvæð áhrif á stærð minkastofnsins á þessu tímabili, sennilega í gegnum áhrif á fæðuframboð fyrir mink. Þessi rannsókn gefur sterkar vísbendingar um að breytingar á loftslagi hafi haft óbein, neikvæð áhrif á mink í gegnum fæðuframboð.
Sömuleiðis virðist vaxandi fjöldi refa mögulega hafa haft neikvæð áhrif á minkastofninn. Þessir þættir gætu í sameiningu hafa stuðlað að fæðuskorti fyrir mink og fækkun í minkastofninum frá árinu 2004. Jafnvel minkurinn, sem er ágengur, ósérhæfður og með mikla aðlögunarhæfni, virðist við ákveðin skilyrði bregðast neikvætt við afleiðingum loftslagsbreytinga. Þetta vekur ugg um framtíð margra annarra rándýra sem eiga undir högg að sækja og eru ekki eins ósérhæfðar og minkurinn.