Reiðhöllin vígð – Myndir

Mikil hátíðahöld voru hjá hestafólki og velunnurum þeirra laugardaginn 18. mars sl. þegar reiðskemman var vígð.

Fyrir vígslu var öllum boðið í kaffi og með því. Fólk á öllum aldri mætti og gæddi sér á veitingum. Teymt var undir yngstu börnin sem sum hver sátu hest í fyrsta skipti. Að loknum hring fóru flest börnin aftast í röðina til þess að fara aftur. Það má því teljast líklegt að framtíðarknapar hafi leynst í þessum hóp.

Við vígsluna sýndi hópurinn Lokkadísir listir sínar flutt voru ávörp og hamingjuóskur þeyttust um salinn. Farinn var reiðtúr þar sem um 40 manns tóku þátt. Eftir ferðina var grillveisla í höllinni og gæddu hestamenn sér á veitingum undir lifandi tónlist langt fram eftir kvöldi.

Reiðskemman var byggð að mestu í sjálfboðavinnu hjá meðlimum Hesteigendafélagsins. Veðrið í vetur var hagstætt fyrir útivinnu og voru skráðir vinnutímar vel yfir 2.000. Þar er einungis átt við beina vinnutíma og ekki tekið tillit til skipulagsvinnu og umsýslu, sé það talið með má gera ráð fyrir að tímarnir fari upp í þriðja þúsund. Hafist var handa sl. vor. Skipulags- og bygginganefnd samþykkti umsókn um byggingarleyfi 11. apríl árið 2016, fyrsta skóflustunga var 4. júní sama ár og rúmri viku síðar var skrifað undir samning við Límtré Vírnet. Eftir uppslátt, steypuvinnu, reisingu, klæðningu og allskyns járna- og smíðavinnu var höllin klár í vígslu 18. mars.

Reiðhöllin kemur til með nýtast vel fyrir Hesteigendafélagið og má gera ráð fyrir að starf félagsins eflist umtalsvert. Auðveldara er að stunda hestamennsku yfir vetrarmánuðina og auðveldar þetta t.d. tamningar.

Það eru ekki einungis hestamenn sem njóta góðs af þessu, nú þegar hefur farið fram hlýðninámskeið fyrir hunda. Höllina má líka nýta undir aðra starfsemi s.s. matarmarkaði, sýningar og samkomur svo segja má að höllin nýtist samfélaginu öllu á einn eða annan hátt.