Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Sæljós dregið á land

Björgunarsveitin Lífsbjörg var kölluð út á síðasta föstudags­morgun vegna leka sem komið hafði Sæljósi GK. Báturinn var þá bundinn við bryggju í Rifi og við það að sökkva höfðu hafnarverðir áhyggjur af bátnum þar sem lekinn hafði verið stöðugur. Í mars á síðasta ári kom leki upp í bátnum, en þá var hann á veiðum um sjö sjómílur frá landi, var hann þá dreginn í land á Rifi og hefur báturinn verið þar síðan.

Greiðlega gekk að dæla upp úr bátnum og dró Björgunarbáturinn Björg Sæljósið eins grunnt og þorandi var en grafin hafði verið rás í fjörunni þar sem báturinn gæti setið við Rif. Veður var leiðinlegt og mikill vindur, þurfti þar af leiðandi að toga bátinn upp í rásina. Notuðust björgunarsveitarmenn við Uni­mog­ bíl sveitarinnar til þess. Daginn eftir var svo gengið betur frá bátnum þannig að hann fari ekki af stað. Myndina tók Hafrún Ævarsdóttir.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli