Sameiningar sveitarfélaga

Í næstu viku viku fara fram kynningarfundir í Stykkishólmi, Helgafellssveit og Grundarfirði um hugsanlega sameiningu þessara sveitarfélaga.

Um leið og íbúar þessara sveitarfélaga eru hvattir til að fjölmenna á fundina og kynna sér þessar hugmyndir þá liggur það fyrir að það er mjög stuttur tími til stefnu.
Heimildir Stykkishólms-Póstsins eru á þann veg að kosið verði um sameiningarmál í nóvember/desember á þessu ári og verði niðurstöður jákvæðar þá verði kosið í sameinuðu sveitarfélagi þessara þriggja sveitarfélaga í sveitarstjórnarkosningum vorið 2018. Það þýðir að framboð til sveitarstjórnarkosninga verður skipað fólki af stærra svæði en áður og kjördæmið myndi stækka og um 1650 manns verða þá á kjörskrá.

Framboðsmál fyrir komandi sveitarstjórnarkosninga eru farin að rata í fjölmiðla, þar sem umræðam snýst um hvaða flokkar og listar verða í framboði. Kosningavetur fer brátt í hönd og má ávallt sjá þess merki hjá pólitíkinni þegar sá tími rennur upp.

Afleiðingarnar stundurm afdrifaríkar, stundum til góðs og stundum ekki. Það er hægt að fara að spökulera heilmikið um þessu mál bæði hér á Snæfellsnesi og víða um land. Svo má velta upp þeirri spurningu hvernig best sé að nálgast stjórnun sveitarfélaga og þá sérstaklega minni sveitarfélaga þar sem nálægðin er mikil.

Hvað sameinar íbúa sveitarfélaganna? Er það pólitíkin eða eitthvað annað? Er það etv. staðsetningin, átthagarnir, lífsgæðin úti á landi, náttúran? Hvað segja komandi kynslóðir um það?

am/frettir@snaefellingar.is