Sauma og prjóna fyrir Rauða krossinn

Á þriðjudögum hittast hressar og duglegar konur í Átthagastofu á vegum Rauða Krossdeildar Snæfellsbæjar. Þetta eru sjálfboðaliðar sem taka þátt í verkefninu „Föt sem framlag“ á vegum Rauða krossins. Hefur Snæfellsbæjardeildin tekið þátt í þessu verkefni frá árinu 2009, konurnar hittast einu sinni í viku og sauma og prjóna föt í pakka sem sendir eru til þeirra sem á þurfa að halda og hafa fatapakkarnir undanfarin ár verið sendir til Hvíta Rússlands en þar er mikil fátækt og gríðarlegir kuldar. Í pökkunum eru peysa, buxur, nærfatnaður, sokkar, húfa, teppi, handklæði og lak. Þetta útbúa þær af mikilli natni, bæði sauma þær föt upp úr gömlum fötum, hekla og prjóna teppin, húfur og sokka og einnig prjóna þær peysur. Pakkarnir eru ætlaðir börnum á aldrinum 0 til 12 mánaða. Hittast þær eins og áður segir í Átthagastofu á þriðjudögum frá 13:00 til 15:00 fyrir áhugasama.