Miðvikudagur , 19. desember 2018

Síld á Silfurgötu

Það er ekki nóg með að síldin gangi hér um allan Breiðafjörð hún er komin alla leið upp á Silfurgötu sem á náttúrulega við, þar sem gatan dregur nafn sitt líklega af silfri hafsins?? Það er önnur saga en fyrir 22 árum var tekið til sýninga hér leikverkið Síldin kemur og síldin fer eftir þær systur Iðunni og Kristínu Steinsdætur. Leiksýningin var sett upp á Hótelinu og var stór sýning með tónlistaratriðum og fjölda leikara sem tóku þátt. Nú hefur upptaka frá sýningunni verið sett á stafrænt form og hyggur leikfélagið á sýningu á upptökunni fimmtudaginn 24. október n.k. Þarna stigu margir á stokk á öllum aldri og vafalaust verður gaman að rifja upp þessa sýningu sem fer fram í leikfélagshúsinu að þessu sinni. Að sögn Bjarka Hjörleifssonar formanns leikfélagsins Grímnis þá var tekið upp efni að tjaldabaki og verður það einnig sýnt þetta kvöld kl. 20. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. En að öllum líkindum verður a.m.k. ein sýning til viðbótar.
Starfsemi leikfélagsins síðustu ár hefur verið fjölbreytt en aðstöðuleysi segir Bjarki há félaginu á ýmsum sviðum. Starfssemin hefur byggt á litlum hópi fólks sem hefur með dugnaði sett upp litlar og stórar sýningar. Fjármálin hafa einnig tekið sinn tíma í starfi stjórnar en staðan hefur batnað mikið. Starfsemi vetrarins er í mótun og ekki ljóst í hvaða verkefni verður ráðist, enn sem komið er. Tilgangurinn með bíósýningunni nú er m.a. að vekja athygli á hversu margir og ólíkir einstaklingar hafa gaman af því að taka þátt í verkefnum af þessu tagi og dregur Bjarki ekki dul á það að gaman væri að sjá fleiri taka þátt í starfi félagsins.
1381665_620957387956006_795446914_n
Á meðfylgjandi mynd leikfélagsins frá því í denn má sjá: Sitjandi Áslaug Kristjánsdóttir, Atli Kristbergsson og Eyþór Benediktsson og standandi: Guðlaug Ágústsdóttir, Sigrún Ársælsdóttir og Ingveldur Eyþórsdóttir.