Sjúkraflug á Suður- og Vesturlandi?

Aðgangur dreifbýlis að Landspítalanum er takmarkaður vegna fjarlægðar. Þetta kemur fram í skýrslu fagráðs um sjúkraflutninga með þyrlum sem kynnt var heilbrigðisráðherra á dögunum. Alvarleg slys sem þarf að meðhöndla á Landspítalanum eru orðin tíðari, meðalaldur þjóðarinnar hefur hækkað auk þess eru fleiri á landinu vegna aukins ferðamannastraums.

Skýrsla fagráðs telur því nauðsynlegt að nýta þyrlur til sjúkraflutninga og leggur til að prófun verði gerð á Suður- og Vesturlandi.

Þyrlurnar sem um ræðir eru minni en björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar og yrðu mannaðar lækni, sem styttir biðina eftir því að koma sjúklingi undir læknishendur. Helsti galli þeirra er sá að þær geta ekki flogið í öllum veðrum og ekki eins langt og þyrla Gæslunnar. Hægt verði að hafa nokkrar starfsstöðvar og samnýta sjúkrabíla og þyrlur.

Áður en framhaldið er ákveðið vill fagráðið hafa reynslutíma á Suður- og Vesturlandi í eitt eða tvö ár.

Verði þetta að veruleika má því búast við að sjá þyrlur hér flytja sjúklinga í framtíðinni.