Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Skógarströndin bíður

Síðasta haust kom fram að verja ætti 250 milljónum kr. í endurbætur á Snæfellsnesvegi á Skógarströnd næstu 2 ár samkvæmt samgönguáætlun. Einnig var tillaga samþykkt um að veita alls 1.100 milljónum kr. í endurbætur til ársins 2036. Áætlunin var samþykkt 12. október, rétt fyrir Alþingiskosningar. Tveimur mánuðum seinna samþykkti Alþingi fjárlög ársins 2017 og þar vantar um 9 milljarða í nýjar framkvæmdir í samgöngum.

Mikil umræða var um bætur á veginum síðasta sumar og haust vegna tíðra slysa og óhappa sem rekja mátti til ástands vegarins, en ekkert bundið slitlag er á honum og margar einbreiðar brýr. Með aukningu ferðamanna hefur umferð um veginn margfaldast og því meiri hætta á slysum.

Nú er það svo að ekki verður farið í neinar nýframkvæmdir á veginum eins og til var ætlast, í raun verður ekki farið í neinar nýframkvæmdir á vegum á öllu Vesturlandi. Þó má gera má ráð fyrir að vegurinn um Skógarströnd verði lagfærður að hluta því fjármagn fæst í viðhald á vegum og er vegurinn þar ekki undanskilinn. Í frétt RÚV segir Páll S. Brynjarsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi að varla hafi liðið sú vika síðasta sumar að ekki hafi verið óhapp á veginum. Vegurinn tengir Dalina við Snæfellsnesið og hefur umferð á svæðinu aukist mikið.

Þá hefur framkvæmdum á Uxahryggjarvegi einnig verið slegið á frest, en ferðaþjónustuaðilar sáu tækifæri í lagfæringar þar vegna tengingar við Suðurlandið.

Mótmælt víða um land

Austfirðingar mótmæltu því að hætt hefur verið við framkvæmdir í Berufirði með því að loka veginum með ökutækjum sínum sl. sunnudag. Er þetta hluti af hringveginum sem er ekki á bundnu slitlagi.

Vestfirðingar hafa sett af stað undirskriftalista til að mótmæla því að hætt hefur verið við framkvæmdir í Gufudalssveit á sunnanverðum Vestfjörðum. Mikil reiði er meðal íbúa þessara landshluta vegna fréttana.