Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Skólarnir komnir af stað

Grunnskólinn í Stykkishólmi var settur s.l. föstudag og mættu nemendur og starfsfólk skólans svo í skólann s.l. mánudag þar sem kennsla hófst með þriggja daga verkefni í Uppeldi til ábyrgðar áætluninni. Bæjarbúar fengu smjörþefinn af því í gær miðvikudag þegar skilaboð héngu á hurðum heimila og fyrirtækja með heilræðum úr efnvið þessarar áætlunar, á myndskreyttum spjöldum frá nemendum. Kennsla skv. stundarskrá hefst í dag, fimmtudag. Að sögn Berglindar Axelsdóttur skólastjóra var starfsfólki skólans boðið á tveggja daga námskeið í Uppeldi til ábyrgðar sem heppnaðist mjög vel og var almenn ánægja með það.

156 nemendur eru nú við skólann og að sögn Berglindar þá hefur verið í mannað í allar stöður nema í Regnbogaland sem er heilsdagsskólinn. Einn nýr starfsmaður hefur verið ráðinn í afleysingar í eitt ár vegna fæðingarorlofs, Sigurður Þ. Magnússon, sem sinna mun stærðfræðikennslu í efri bekkjum. Sú nýjung verður tekin upp að tveir kennarar sinna stærðfræðikennslu í hverjum árgangi í einu og munu stærðfræðitímar í árgöngunum vera á sama tíma svo það skapast góður farvegur fyrir samstarf milli árganga og kennara í faginu.

Tilraun sem gerð var með kennslu í sköpun í 1.-4. bekk í fyrra tókst mjög vel og hefur verið útvíkkuð upp í 7.bekk. Verkefnið heitir Hugarheimur og þar munu nemendur skapa úr verðlausum efnivið auk þess sem nýr þrívíddarprentari sem skólanum var gefið í sumar verður nýttur við kennsluna í Hugarheimi.

N.k. mánudag koma góðir gestir hingað í Hólminn, en þar eru á ferðinni danskir nemendur frá Kolding sem 10. bekkur heimsótti s.l. vor. Nú er komið að heimsókn þeirra hingað sem stendur til fimmtudagsins 6. september.

Meðfylgjandi mynd er tekin í góða veðrinu í gær á ærslabelgnum fyrir utan skólann þar sem nemendur sýndu ýmsar listir sínar.

am/frettir@snaefellingar.is