Skúrinn víkkar út starfsemina

Sveinn Arnar Davíðsson og Arnþór Pálsson

Við sögðum frá því í síðustu viku að pizzagerðin Stykkið væri að loka en ekki var þá hægt að greina frá hvert framhald staðarins yrði. Nú er hinsvegar ljóst að þeir Arnþór Pálsson og Sveinn Arnar Davíðsson hafa fest kaup á Stykkinu og hafa fengið húsnæðið afhent. Nafn staðarins verður Skúrinn Pizza Joint. Skv. upplýsingum frá þeim félögum munu þeir fara í smávægilegar breytingar – setja sín eigin fingraför á staðinn og opna sem fyrst. Stefnan er að opna innan þriggja vikna. Matseðlabreytingar verða einhverjar en í grunninn verða pizzurnar svipaðar en áleggsúrval verður væntanlega aukið. Á næstu dögum kemur í ljós hvort nýjungar á matseðli sem þeir félagar eru að skoða, verði að veruleika en meira gefa þeir ekki uppi um þær hugmyndir að sinni. Ýmsa aðra hnúta þarf að hnýta fyrir opnun en þeir Addi og Svenni eru fullir bjartsýni.