Slangran – barist gegn slettum í málinu

Hópur í Listaháskóla Íslands hefur komið á laggirnar Facebook síðunni Slangran. Vill hópurinn vekja athygli á því hversu mikið Íslendingar sletta á ensku í daglegu lífi. Á síðunni má finna fréttir varðandi tungumálið og hættunum sem steðjar að því.

Einnig er þar að finna talsett brot úr vinsælum sjónvarpsþáttum yfirfærð á „íslensku”. Hópurinn kemur með tillögur að betra slangri í stað þess enska.

Einn af forkólfum hópsins er Snæfellingurinn Atli Sigursveinsson. Í spjalli við fréttaritara segir hann að hópurinn hafi orðið til við verkefni í skólanum þar sem nemendum í grafískri hönnun var skipt í hópa og áttu hóparnir að fjalla um tiltekin vandamál ákveðinna viðfangsefna.

Hópurinn sem myndi á endanum gera Slöngru-síðuna fékk viðfangsefnið tækni. Mikið hefur verið í fréttum undanfarið hversu mikil íslenskan á undir högg að sækja í tæknivæddri veröld. Sérstaklega þar sem lítið af viðmóti snjalltækja sé þýtt yfir á íslensku. Þannig hættir fólki til að nota einungis ensku heitin yfir fyrirbæri, sér í lagi yngra fólki og það eru þau sem koma til með að móta tungumál framtíðar. Því fannst hópnum upplagt að nýta tæknina til þess að vekja athygli á vandamálinu.

Ein af tillögum Slöngrunnar. Mynd af Facebook-síðu Slöngrunnar.

 

Verkefninu er lokið gagnvart skólanum en ákveðið hefur verið að halda áfram með síðuna enda hefur hún tekið miklum vinsældum á netinu. Fólk virðist hafa áhuga á efninu og segir Atli að það sé aðalmálið, að fá umræðuna.

Í talsettum myndböndum á síðunni, sem þykja hin besta skemmtun, má sjá hversu fáránleg mikil notkun á ensku-slettum getur orðið. Það er einmitt skoðun hópsins að sýna fram á fáránleika þess að nota annað tungumál í slangur þegar íslenskan getur alveg sinnt því hlutverki.

Í náinni framtíð er áætlað að gera veggspjöld svipuð myndunum sem finna má á síðunni en einnig hafa nokkrir notendur Snapchat sem eiga sér marga fylgjendur tekið áskorun hópsins að fara í gegnum heilan dag án þess að sletta úr ensku.

Hægt er að skoða Slöngruna hér.