Snæfellsnes til sýnis

Birt með leyfi Þjóðminjasafns Íslands / Courtesy of National Museum of Iceland. W.G. Collingwood: Kolgrafafjörður, 19. júní 1897. Vatnslitur, 14 x 20 cm / W.G. Collingwood: Kolgrafafjörður, June 19 1897. Watercolour, 14 x 20 cm.

Listvinafélag Stykkishólmskirkju bryddar nú í þriðja sinn upp á myndlistarsýningu í Listasal kirkjunnar yfir sumartímann. Sunnudaginn 17. júní kl. 17 opnar sýning Einars Fals Ingólfssonar: Fótspor. Á sýningunni getur að líta úrval ljósmyndaverka eftir Einar Fal úr tveimur viðamiklum myndröðum sem hann vann að á undanförnum áratug, Sögustaðir – Í fótspor W.G. Collingwood (2007-2010) og Landsýn – Í fótspor Johannesar Larsen (2014-2016).

Á sýningunni eru ljósmyndir sem Einar Falur tók á Snæfellsnesi út frá vatnslitamyndum sem breski myndlistarmaðurinn, rithöfundurinn og fagurfræðingurinn Collingwood málaði sumarið 1897 – nokkrar þeirra má sjá á sýningunni – og teikningum sem danski myndlistarmaðurinn Johannes Larsen gerði á nesinu sumrin 1927 og 1930. Báðir unnu þeir Collingwood og Larsen að myndskreytingum við Íslendingasögurnar með myndum sem þeir gerðu á söguslóðum og notaði Einar Falur verk þeirra sem sinn fararstjóra.

Á sýningunni má einnig sjá samspil verka allra þriggja listamannanna um sögustaði á Snæfellsnesi.

Á opnuninni mun Einar Falur vera með sýningarleiðsögn.

Allir eru velkomnir og enginn aðgangseyrir á sýninguna sem opin verður daglega frá kl. 17-19 fram í september.

Tónleikar sumarsins á vegum Listvinafélagsins verða fjölbreyttir sem fyrr og verður tónlist úr öllum áttum á boðstólum. Fyrstu tónleikar voru í maí þegar László, Andreas og Trond fluttu verk fyrir trompeta og píanó með glæsibrag og næstu tónleikar verða á dagskrá miðvikudaginn 20. júní þegar nágranni okkar frá Grundarfirði Mártón Wirth organisti í Grundarfjarðarkirkju kemur með landa sinn frá Ungverjalandi kóloratúr-sópransöngkonuna Bernadett Hegyi til tónleikahalds hjá okkur.  Þau flytja verk eftir J. S. Bach, W. A. Mozart,  B. Bartók, G. Puccini, F. Lehár, I. Kálmán, Friðrik Jónsson, Andrew Lloyd Webber og fleiri. Tónleikarnir hefjast kl. 20.

Starfsemi Listvinafélagsins er fjármögnuð að langmestu leiti af styrkjum og sjálfboðaliðastarfi og hafa ýmsir sjóðir styrkt starfið. Í ár er Stykkishólmsdeild Norræna félagsins þakkað sérstaklega myndarlegt framlag til myndlistarsýningarinnar í ár, en félagið er aðalstyrktaraðili sýningar Einars Fals.

Allir viðburðir koma inn á Facebook síðu Listvinafélagsins og eru kynntir á heimasíðu Stykkishólmskirkju, stykkisholmskirkja.is

am/frettir@snaefellingar.is