Söfnuðu fyrir gynskoðunarbekk

Kvennafélög í Snæfellsbæ tóku sig saman og héldu Konukvöld í Félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík. Kvöldið var fjáröflunarkvöld og var verið að safna fyrir gynskoðunarbekk fyrir Heilsugæslustöðina í Snæfellsbæ. Verður nýr gynskoðunarbekkur til mikilla bóta fyrir bæði mæðraeftirlit og krabbameinsskoðanir en gamli bekkurinn er kominn vel til ára sinna og mikil þörf á nýjum.
Félögin sem stóðu að kvöldinu voru Kvenfélag Hellissands, Kvenfélag Ólafsvíkur, Kvenfélagið Sigurvon Staðarsveit, Lionsklúbburinn Rán, Lionsklúbburinn Þerna og Soroptimistaklúbbur Snæfellsness.
Kvennakvöldið fór fram föstudaginn 12. janúar og heppnaðist mjög vel. Boðið var upp á léttar veitingar, kynningarog sölubásar voru frá hárgreiðsluog snyrtistofum í Snæfellsbæ og boðið var upp á tískusýningu.
Trausti Leó og Kristbjörg Ásta fluttu tónlist einnig var sýnd stuttmynd þar sem ljósmóðirinn og ónefnd kona fóru á kostum. Veislustjórar kvöldsins voru þær Sólveig Bláfeld Agnarsdóttir og Sigrún Baldursdóttir og héldu þær fjörinu gangandi, sýndu þær konum meðal annars hvernig ætti að föndra skó sem reynast vel í hálku. 150 miðar seldust á kvöldið og giltu þeir einnig sem happadrættismiðar en 18 vinningar voru dregnir út. Þema kvöldsins var Charleston og var húsið skreytt í samræmi við það, ánægjulegt var einnig að sjá hversu margar konur tóku þátt í þemanu og myndaðist mjög góð stemmning. Má því segja að þetta frábæra framtak félaga kvenna í Snæfellsbæ hafi slegið tvær flugur í einu höggi. Frábært skemmtikvöld þar sem konur komu saman og áttu gott kvöld og um leið safnað fyrir nýjum gynskoðunarbekk sem mikil þörf er fyrir. Með sameiginlegu átaki kvenna og fyrirtækja tókst að safna fyrir nýjum bekk. Vildu kvennafélögin fá að koma á framfæri kæru þakklæti til allra þeirra sem styrktu kvöldið eða gáfu vinninga.

þa