Sögusvið í sjónvarpsþáttaseríu

Stykkishólmur sviðsettur við tökur á Walter Mitty 2012.

Stykkishólmur hefur í gegnum tíðina verið vinsæll tökustaður fyrir auglýsingagerð, kvikmyndagerð og sjónvarpsefni. Legið hefur fyrir í nokkuð langan tíma nú að tökur myndu hefjast í janúar á sjónvarpsþáttaröð hér í Stykkishólmi á vegum Saga Film. Stutt er síðan starfsfólk Saga Film pakkaði saman búnaði hér á höfninni eftir tökur á Flateyjargátu s.l. sumar sem nú er einmitt verið að sýna á RÚV. Eins og sjá má í Flateyjargátu er útliti húsa í Flatey breytt nokkuð til samræmis við það tímabil sem sagan gerist í og við slíku má einnig búast í janúar þegar tökur hefjast hér í Hólminum. Erindi frá Saga Film var tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi s.l. fimmtudag þar sem samþykkt var að bæjarstjóri gengi til samninga við Saga Film vegna breytinga á mannvirkjum í eigu Stykkishólmsbæjar í tengslum við verkefnið sem er samframleiðsla með sænsku fyrirtæki. Frétt RÚV um málið segir efni þáttanna tengjast Grænlandi.

am/frettir@snaefellingar.is