Sólin skein á skotthúfuna

Þjóðbúningadagur Norska hússins, Skotthúfan, var haldinn hátíðlegur s.l. laugardag í þurru veðri og m.a.s. sólargeislar létu sjá sig í lok dags. Dagskráin hófst í Eldfjallasafninu þar sem Dr. Karl Aspelund prófessor við háskólann á Rhode Island í Bandaríkjunum spjallaði um þjóðbúninana og Sigurð málara sem hafði mikil áhrif á gerð þeirra á tuttugustu öld. Var fyrirlesturinn vel sóttur. Að honum loknum var haldið í Norska húsið en þar sátu yngismeyjar á búningum og kynntu vörur frá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands. Uppáklæddum þjóðbúningagestum hússins var boðið upp á kaffi og rjómapönnukökur á miðhæðinni og fóru nokkrir gestir í göngutúr í blíðunni að loknu kaffi, upp á Dvalarheimili og heilsuðu upp á heimilisfólk þar. Var kátt á hjalla og rifjaðar upp minningar um búningana.
Myndataka af hópnum er fastur liður á þessum degi og var fólki stillt upp á tröppum Norska hússins og að því loknu var boðið upp á tónleika í gömlu kirkjunni þar sem fjölskylduhljómsveitin Spilmenn Ríkínis lék á langspil, hörpu, hrútshorn og symfón og fluttu íslenska tónlist úr fornhandritum. Vel var mætt á tónleikana. Svo skein sólin á kirkjutröppunum og gestir héldu í allar áttir, sáttir við góðan dag. Sú hugmynd kom upp að halda annan þjóðbúningadag 1. desember n.k. og tengja þannig við fullveldisafmælið og er þess að vænta að úr verði og þjóðbúningafólk á Snæfellsnesi og víðar komi þá saman á ný.

am/frettir@snaefellingar.is