Stigalaus umferð hjá Víkingsliðum

Það blæs ekki byrlega fyrir meistarflokksliðum Víkings Ólafsvíkur í karla- og kvennaflokki þessa dagana en þau fengu engin stig í þessari umferð.

Kvennaliðið tók á móti Selfossi í 1. deild kvenna á síðasta föstu­dag á heimavelli. Leiknum lauk án þess að Víkingsstúlkur næðu að skora mark. Barbara Sól Gísladóttir skoraði tvö mörk fyrir Selfoss og þær Karitas Tómasdóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir gerðu sitt markið hvor. Eftir tvær umferðir eru Víkingsstúlkur með 1 stig í 7. sæti deildarinnar næsti leikur þeirra verður á Eimskipsvellinum á móti Þrótti sunnudaginn 28. maí klukkan 15:00.

Karlaliðið tók svo á móti ÍBV í blíðskaparveðri á sunnudeginum í Pepsídeildinni. Fyrir leikinn höfðu bæði lið unnið einn leik í deildinni en ÍBV var með stigi meira. Leikurinn fór vel af stað en á 21. mínútu skoraði Alvara Monteju fyrir ÍBV eftir góðan undirbúning frá Felix Erni Friðrikssyni. Fóru Eyjamenn því inn í hálfleik marki yfir eftir frekar bragðdaufan hálfleik. Strax í byrju seinni hálfleiks dró þó til tíðinda þegar fyrirliði Víkings Guðmundur Steinn Hafsteinsson fékk rautt spjald. Náði ÍBV að nýta sér liðsmuninn með tveimur mörkum frá varamanninum Arnóri Gauta Ragnarssyni og urðu lokatölur því 0 -­ 3 fyrir gestunum.

Víkingur er því í 11. sæti eftir fjórar umferðir með 3 stig. Næsti andstæðingur strákanna er Breiðablik á útivelli sunnudaginn 28. maí klukkan 18:00.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli