Stór verk unnin í heimabyggð

Það var mikið um að vera um borð í Rifsnesi SH í jólastoppinu. Fór þá Hraðfrystihús Hellissands ásamt Smiðjunni Fönix í það verkefni að rífa aðalvélina í Rifsnesinu. Vélin er af gerðinni Yanmar M220-SN 1100 hestöfl.
Skipt var um höfuðlegur, stangarlegur og pakkningar. Stimplar, slífar og hedd voru sett í nýja hátíðniþvottavél sem Smiðjan Fönix keypti á dögunum. Böðvar Haukdal Jónsson yfirvélstjóri á Rifsnesinu hafði yfirumsjón með verkinu. Fjöldi manns kom líka að verkinu með honum, til að mynda áhafnarmeðlimir skipsins ásamt Rögnvaldi Ólafssyni og starfsmönnum Smiðjunnar Fönix ehf.
Gekk verkið mjög vel enda samhentur hópur og góður andi í mannskapnum en Rifsnesið er nú í sínum fyrsta túr eftir vélarupptektina. Smiðjan Fönix sá einnig á dögunum um að setja nýja aðalvél í Særif SH. Vélin sem tekin var úr var 16 lítra Isuzu vél en nýja vélin er 16,3 lítra Scania. Var það gert meðan báturinn var á floti en sökum stærðar bátsins var ekki hægt að taka bátinn upp á land nema með miklum tilkostnaði. Gerði það verkefnið erfiðara þar sem hann var á floti en allt virðist hafa gengið að óskum í því verkefni og er Særifið í sínum 12 róðri eftir vélarskiptin. Það eru góðar fréttir fyrir samfélagið að svona stór verk séu unnin í heimabyggð.

þa