Stóra upplestrarkeppnin

Heljarinnar upplestrarkeppni fór fram fimmtudaginn 23. mars sl. í Stykkishólmskirkju. Þar voru samankomnir fulltrúar 7. bekkja þriggja grunnskóla á Snæfellsnesi til þess að keppa í upplestri.

Keppendurnir komu frá Grunnskóla Snæfellsbæjar, Grunnskóla Grundarfjarðar og Grunnskólanum í Stykkishólmi.

Ár hvert hefst Stóra upplestrarkeppnin á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember og lýkur í mars. Keppnin er ekki eiginleg keppni heldur þróunarverkefni til að rækta mál og styðst hún við aðalnámskrá í móðurmálskennslu. Hún skiptist annars vegar í ræktunarhluta sem snýr að því að rækta góðan framburð og upplestur. Hins vegar er svo hátíðarhlutinn. Skólar taka þátt víðsvegar um land. Lokakeppnin er því einskonar uppskeruhátíð þar sem sjá má hversu vel hefur tekist til að rækta og viðhalda góðum framburði og upplestri.

Undankeppnir höfðu verið haldnar í skólunum þar sem allir nemendur tóku þátt. Var það mál manna að öll hefðu þau staðið sig með prýði.

Keppendur lásu upp úr Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason og ljóð sem hvert og eitt valdi sjálft.

Fremst meðal jafningja að mati dómnefndar á lokakeppninni voru þau Dagný Inga Magnúsdóttir og Símon Andri Sævarsson frá Stykkishólmi og Margrét Helga Guðmundsdóttir frá Grundarfirði.