Miðvikudagur , 20. febrúar 2019
Fyrsti bæjarstjórnarfundurinn. Af vef Stykkishólmsbæjar

Stykkishólmsbær þrítugur

Fyrsti bæjarstjórnarfundurinn. Af vef Stykkishólmsbæjar

Þó svo saga Stykkishólms nái að einhverju leiti aftur til 16. aldar fagnar bærinn engu að síður 30 ára afmæli þessa vikuna.

Það var 22. maí árið 1987 sem Stykkishólmur fékk bæjarréttindi og varð þá Stykkishólmsbær, ekki Stykkishólmshreppur. Þetta kemur fram í pistli á heimasíðu Stykkishólmsbæjar.

10. júní sama ár hélt hreppsnefnd Stykkishólmshrepps sinn síðasta fund og bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar sinn fyrsta.

Fundurinn var haldinn í Félagsheimilinu, Ellert Kristinsson var forseti bæjarstjórnar en ásamt honum í stjórn voru Kristín Björnsdóttir, Magndís Alexandersdóttir, Gunar Svanlaugsson, Guðmundur Lárusson, Einar Karlsson og Pétur Ágústsson. Sturla Böðvarsson var bæjarstjóri.

Þessi afmælisdagur bæjarins markar einnig þrjátíu ára afmæli fyrstu skóflustungu Íþróttamiðstöðvarinnar. Sverrir Hermannsson, þáverandi menntamálaráðherra tók hana. Tæpum þremur árum síðar var húsið fullgert. Tilviljun ein réði því að þessir atburðir áttu sér stað á sama degi.

Það eru fleiri stofnanir og félög sem halda upp á stórafmæli á þessu ári. Leikfélagið Grímnir fagnar 50 ára starfsafmæli og Amtsbókasafnið hefur verið starfandi í 170 ár. Til þess að setja aldur bókasafnsins í samhengi má geta þess að það deilir 170 ára afmæli með Carlsberg, Thomas Edison, óperunni Macbeth eftir Verdi, Sveinbirni Sveinbjörnssyni og skáldsögunni Wuthering heights eftir Emily Brontë.