Stykkishólmsbær veitir peningastyrk vegna náttúruhamfara

Aðfararnótt 18. júní gekk flóðalda yfir þorpið Nuugaatsiaq á vestanverðu Grænlandi. Fjórir fórust og eignatjón var gífurlegt. Aldan hrifsaði til sín grunnskólann, rafstöðina og verslun og hefur Kim Kielsen forsætisráðherra Grænlands lýst því yfir að þorpið verði mannlaust í a.m.k. ár. Íbúar þorpsins voru innan við hundrað manns og halda þeir flestir til í nágrannaþorpum. Ljóst er að mikil uppbygging er framundan og hóf Hjálparstarf kirkjunnar í samvinnu við KALAK, Hrókinn og fleiri Grænlandsvini söfnunarátakið „Vinátta í verki”.

Þegar hafa safnast yfir 35 milljónir í söfnunina og hafa einstaklingar og sveitarfélög verið dugleg að styrkja.

Bæjarráð Stykkishólmsbæjar samþykkti á fundi sínum í vikunni að veita 170.000 kr. til söfnunarinnar.

Hægt er að leggja inn á söfnunarreikninginn 0334-26-056200, kt. 450670-0499. Einnig er hægt að leggja inn 2.500 kr. með því að hringja í númerið 907-2003.