Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Sumardagskrá Frystiklefans í Rifi er líka fyrir heimamenn

Kæru bæjarbúar,

Nú á dögunum fengu þið inn um bréfalúguna dreyfibréf frá Frystiklefanum í Rifi. Ástæða þessarar sendingar er sú að sumardagskráin okkar er byrjuð. Í 90 kvöld í röð verður einhver menningarviðburður í boði í húsinu og það er okkar ósk að heimamenn láti sig ekki vanta, enda er það yfirlíst markmið okkar að gleðja heimamenn jafn mikið og ferðamenn.

Söngleikurinn okkar, Journey to the centre of the earth, er á fjölunum þessa dagana. Þessi sýning fékk gríðarlega góða dóma gagnrýnenda og áhorfenda þegar hún var í sýnd nú í vetur og ástæða til þess að hvetja þá sem ekki sáu hana þá til þess að missa ekki af. Einnig bjóðum við uppá gestaleiksýninguna Purgatorio sem er spennudrama af bestu gerð og er nú leikin í fyrsta skipti utan Ástralíu, þar sem hún fór sigurför í nokkur ár. Í Frystiklefanum er einnig fullkomin aðstaða til kvikmyndasýninga og í sumar verða Hrútar á dagskránni. Hrútar er margverðlaunuð íslensk kvikmynd og verður hún sýnd hvert miðvikudags og laugardagskvöld í sumar. Auk þessa verðum við reglulega með tónleika og aðra gestaviðburði á dagskránni. Má þar nefna tónleika með Jónasi Sig & Ritvélum Framtíðarinnar, Valdimar og sirkussýningu með listamönnum frá Cirque De Solei. Til þess að sjá nákvæma dagskrá er tilvalið að skoða viðburðadagatalið á heimasíðunni okkar, www. thefreezerhostel.com

Það er ekki sjálfgefið að úti sé haldið menningardagskrá fyrir jafn fámennt samfélag og okkar. Grundvöllur þess að við höldum áfram að skipuleggja og framkvæma þessa viðburði er sá að við finnum fyrir þörf og áhuga bæjarbúa fyrir því sem í boði er. Með því að mæta á viðburði í Frystiklefanum sýnir þú í verki að þú viljir að starfið haldi áfram. Um leið og við þökkum fyrir mikla og góða þátttöku í okkar starfi síðastliðin ár hvetjum við alla til þess að halda áfram að taka áhættu og mæta á viðburði sem e.t.v. eru þeim framandi og öðruvísi.

Við viljum vera með reglulega dagskrá í húsinu og við viljum hafa eitthvað í gangi allt árið um kring en við getum ekki verið með Bubba Morthens og Mugison hérna í hverri viku. Menning er allskonar, eftirspurnin frá háklassa listamönnum eftir því að fá að vera hjá okkur er gríðarleg en það að bjóða þeim hingað fellur um sjálft sig ef heimamenn þora ekki að taka sénsinn á einhverju sem þeir þekkja ekki út og inn. Við erum að reyna að bjóða uppá hlaðborð. Ekki vera týpan sem borðar bara humarinn hjá okkur. Prófaðu líka kengúruna eða grænmetisspjótið.

Með bjartsýnina að vopni og draum um lifandi samfélag í hjarta.

Kári Viðarsson