Sumarleikárið hafið

Nú er sumarleikár Frystiklefans í Rifi formlega hafið og eru þrjár leiksýningar í gangi í húsinu þessi misserin. Sýningarnar eru Journey To The Centre Of The Earth: The Musical, Humours og Bizarre. Journey To The Centre Of The Earth hefur nú sitt þriðja leikár í klefanum en sýningin hefur fengið frábæra dóma, henni meðal annars líkt við Hamilton, vinsælasta söngleikinn á Broadway síðastliðna áratugi og einnig má geta að sýningin var á lista menningarannáls DV yfir bestu menningarviðburða síðasta árs og var í hópi með tónleikum Bjarkar Guðmundóttur í Hörpu og örfárra annarra. Hvetjum við heimamenn til þess að missa ekki af tækifærinu til að sjá þessa einstöku sýningu. leikarar sýningarinnar eru tæplega 20 talsins og eru 15 þeirra börn héðan af svæðinu sem standa sig eins og hetjur í krefjandi hlutverkum. Sýningin er sýnd á þriðjudögum og fimmtudögum í sumar
Humours er nýtt gamanleikrit eftir Kára Viðarsson, Júlíönu Kristínu Liborius Jónsdóttir og Vilhelm Neto. Verkið fjallar um ungt fólk sem dreymir um frægð og viðurkenningu með því að stofna hljómsveit sem spilar einungis tónlist eftir hina heimsfrægu og goðsagnakenndu hljómsveit, Fleetwood Mac. Verkið er bæði fyndið og hjartnæmt og hefur vakið gríðarlega mikla lukku hjá leikhúsgestum sem séð hafa sýninguna hingað til. Humours er sýnd á mánudögum í allt sumar.
Bizarre er gaman-söngleikur þar sem tveir norskir leikarar fara á kostum í hinum ýmsu hlutverkum. Verkið segir sögu af heimreisu þessara tveggja norðmanna þar sem kennir ýmissa grasa og tónlist af mörgum toga og á mörgum tungumálum kemur við sögu. Bizarre er sýnd á miðvikudögum út Júlí.
Það er ekki sjálfgefið að hafa atvinnuleikhús í heimabæ sínum og forsenda starfsemi þess er algjörlega undir aðsókn heimamanna komin. Við hvetjum því alla til þess að taka þátt í starfinu og mæta á sýningar því leikhúsið er ekkert ef sætin eru tóm. Lengi lifi menningin, samtalið, skemmtunin, grínið, sköpunin og lifandi samfélag hér í bæ.

Með hvatningu og von um að sjá enn fleiri heimamenn nýta sér þessa frábæru dagskrá.
Kári Viðarsson, leikhússtjóri.