Útisundlaugin lokuð

Það gerðist núna um helgina að bilun kom upp í útisundlauginni hér í Stykkishólmi. Mikið vatn lak úr lauginni og var strax farið að reyna að finna lekann. Í gær miðvikudag fundust tvö göt á dúknum, sem kominn er til ára sinna, og verður farið strax í viðgerð þegar útlit er fyrir tveggja daga þýðu í veðurkortunum. En það var ekki það eina sem gerðist, því öðru hvoru megin við helgina fór rafmagnið og við það eyðilagðist aðal stýritölva íþróttahússins sem stýrir öllum nemum, dælum og fleiru þar sem vatn fer um. Það kom því ekki einu sinni vatn úr sturtunum! Búið er að fá nýja tölvu og forrita hana upp á nýtt og tengja við. Að sögn Arnars forstöðumanns verður það kannað hvort tjónið fáist að einhverju leiti bætt af raforkusala því það hljóp á hundruðum þúsunda auk tekjutaps sem af því leiddi. Útisundlaugin, vaðlaugin og pottarnir hafa því verið lokaðir síðustu daga en búið er að koma heitu pottunum í lag. Útisundlaugin og vaðlaugin tengjast sömu lögnum svo þegar búið er að laga í útisundlauginni þá komast báðar í gagnið. Þessar aðgerðir hafa kallað á heilmikið rót á útisvæði sundlaugarinnar og þar hafa gröfur verið að athafna sig, enda þurfti að taka upp snjóbræðsluna til að geta komist að lögnum til viðgerða. Þannig er vonast til að pottarnir verði aðgengilegir gestum vonandi fyrir helgina en innilaugin hefur verið opin allan tímann og tók Arnar það fram að um leið og það verður hægt verður það tilkynnt á Facebooksíðu sundlaugarinnar. Til stóð að skipta út dúk og heitum pottum nú í vor í útisundlauginni en því hefur verið frestað til 2019 og vonandi helst dúkurinn heill þangað til. Arnar sagði ónæði fyrir gesti laugarinnar talsvert vegna þessa og baðst velvirðingar á því.

am