Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Þorrablót í Klifi


Þorra var blótað í Ólafsvík á síðasta laugardag í félagsheimilinu Klifi. Að þorrablótinu stóðu eins og áður Kvenfélag Ólafsvíkur, Lionsklúbburinn Rán, Lionsklúbbur Ólafsvíkur, Átthagafélag Fróðhreppinga og Leikfélag Ólafsvíkur.
Mikill undirbúningur liggur að baki svona þorrablóti og skilaði hann sér greinilega. Elva Magnúsdóttir flutti minni kvenna og Baldvin Leifur Ívarsson minni karla. Eftir að blótsgestir höfðu gætt sér á gómsætum þorramat frá Galito, sungið fjöldasöng og hlustað á minni karla og kvenna var komið að hápunkti kvöldsins. Enda vöktu metnaðarfull skemmtiatriðin mikla lukku en Ólafsvík breyttist í Tjöruvík í stutta stund. Gaman var að sjá hversu skemmtilega útfærð atriðin voru og greinilega vel úthugsuð enda farið yfir það helsta sem bar við á síðasta ári.
Að skemmtiatriðum loknum var svo dansað inní nóttina undir stjórn hljómsveitarinnar Næsland. Góð hefð er fyrir þorrablótinu og alltaf vel mætt voru þorrablótsgestirnir rúmlega 250 að þessu sinni og eru örugglega farnir að bíða spenntir eftir næsta blóti.

þa