Þorri genginn í garð

Víða eru haldin þorrablót um þessar mundir. Þorra var blótað í Ólafsvík síðasta laugardagskvöld fyrir fullu húsi. Líkt og undanfarin ár stóðu Fróðhreppingafélagið, Kvenfélag Ólafsvíkur, Leikfélag Ólafsvíkur, Lionsklúbbur Ólafs­víkur og Lionsklúbburinn Rán fyrir skemmtuninni í Félags­heimilinu Klifi. Það var hin eina og sanna Dóra sem sá um veislustjórn og tók einnig þátt í skemmtiatriðunum sem vöktu mikla kátínu. Mátti af þeim sjá að alltaf er líf og fjör í bæjarfélaginu. Olga Guðrún Gunnarsdóttir flutti minni karla á mjög svo skemmtilegan hátt og ekki var Magnús Stefánsson síðri þegar hann flutti minni kvenna.

Þegar þorrablótsgestir höfðu gætt sér á þorramat frá Galito á Akranesi í fallega skreyttu félagsheimilinu, notið skemmtiatriða sem nefndin hafði lagt mikinn mentnað í að undirbúa og heppnuðust mjög vel eins og áður kom fram, skemmtu blótsgestir sér við dans fram eftir nóttu en það var hljómsveitinn Tvist og bast sem sá um fjörið. Vildi Þorrablótsnefndin fá að koma þakklæti sínu á framfæri til þeirra Sigrúnar og Idda en þau gáfu nefndinni hárkollur sem komu að góðum notum í skemmtiatriðunum og einnig til þeirra fjölmörgu sem aðstoðuðu þau við ýmsan undirbúning.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli