Þörungavinnsla, fleiri sýna áhuga

Auðlindir Breiðafjarðar hafa verið ýmsum hugleiknar í gegnum tíðina og fjöldi starfa tengdar þeim á svæðinu í kring. Hefðbundinn sjávarútvegur hefur verið stundaður á svæðinu frá því að land byggðist og hefur hann þróast í takt við tímann með þekkingu á svæðinu, tækniþróun og vísindum. Frumkvöðlar á svæðinu hafa bryddað upp á nýbreytni í öflun verðmæta úr firðinum t.a.m. með skelveiðum, skelrækt, ígulkerjaveiðum ofl. Öflun sjávargróðurs hefur verið stunduð um árabil og eftir því sem vísindum fleygir fram koma æ betur í ljós möguleikar varðandi nýtingu þeirra í óskyldum atvinnugreinum og iðnaði. Síðustu 10 ár eða svo hefur áhuginn aukist á sjávargróðrinum en fram kom í fréttum snemma árs 2015 að Íslenska kalkþörungafélagið hyggðist byggja upp þörungavinnslu í Stykkishólmi. Óskað er eftir 4000 fm hafnaraðstöðu, lóð á 1 hektara fyrir starfsemina sem verið var að útfæra í Skipavík. Reiknað var með að 15-20 manns myndu fá störf hjá verksmiðjunni og hluti þeirra starfa væru þannig að háskólamenntun væri áskilin. Áhugi fleiri aðila á þara í Breiðafirði vaknaði um svipað leiti því í júlí sama ár sigldi Þangbrandur I í höfn í Stykkishólmi og var Félagsbúið Miðhraun 2 eigandi skipsins og stóð til að fara í vinnslu og slátt á þara sem landað skyldi í Stykkishólmi en keyrt suður á Miðhraun til vinnslu. Þangbrandur hefur nú verið seldur til Þörungaverskmiðjunnar á Reykhólum. Í kjölfarið fóru af stað umræður um lífríki Breiðafjarðar og voru stofnaðir vinnuhópar til að skoða þau mál. Lög um öflun sjávargróðurs voru samþykkt í júní 2017 og tóku gildi um síðustu áramót.

Í sumar kallaði bæjarstjóri Stykkishólms eftir minnisblaði frá Íslenska kalkþörungafélaginu um áform þeirra um að byggja upp þörungavinnslu í Stykkishólmi. Minnisblaðið hefur borist og fundað var með forsvarsmanni félagsins Halldóri Halldórssyni. Nú hefur það gerst að Acadian Seaplants hefur sýnt áhuga á viðræðum við Stykkishólmsbæ um þörungavinnslu í bænum. Fulltrúar þeirra hafa komið til fundar við bæjaryfirvöld. Hefur félagið óskað eftir að koma á framfæri minnisblaði um áform og  hugmyndir sínar í þessu efni. Það minnisblað mun væntanlega berast fyrir mánaðamót. Í framhaldinu verður félaginu boðið að taka þátt í samræðum við Stykkishólmsbæ um þörungavinnslu í bænum. Í fundargerð frá síðasta bæjarstjórnarfundi gerði bæjarstjóri grein fyrir málinu og jafnframt til að gæta jafnræðis í þessu ferli, þá verða minnisblöðin kynnt bæjarbúum samtímis og verður bæjarbúum gefið tækifæri á að veita umsögn og að koma athugasemdum að við bæði minnisblöðin. „Bæjarstjóri ítrekaði að engar ákvarðanir hafi verið teknar í þessu sambandi og að verkefnið er á frumstigi undirbúnings. Um er að ræða stórt skipulags-, framkvæmda- og umhverfisverkefni og að hann geri ráð fyrir því að leitast við að eiga gott og víðtækt samráð við íbúa. Forsenda þess að hægt sé að hefja samráðsferlið með formlegum hætti er að upplýsingagjöf til íbúa sé fyrir hendi, enda er mótunarferillinn ekki síður mikilvægur en niðurstöðurnar. Minnisblöð frá báðum aðilum er mikilvægur liður í þessu undirbúningsferli. Í framhaldinu verða svo teknar ákvarðanir um næstu skref.“ segir ennfremur í fundargerðinni.

am/frettir@snaefellingar.is