Tónleikaröð af stað í Stykkishólmskirkju

Sumartónleikaröð Stykkishólmskirkju fer af stað 17. maí n.k. og stendur fram í september. Fjölbreytt menningarstarfsemi hefur vaxið og dafnað í Stykkishólmskirkju allt frá vígslu hennar árið 1990. Í fyrra var tekinn í notkun sýningarsalur í safnaðarheimilinu með ljósmyndasýningu frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Áfram verður haldið með fjölbreytta viðburði og sýningar í Stykkishólmskirkju í ár. Sumartónleikaröð hefst 17. maí þegar munnhörpuleikarinn Þorleifur Gaukur og bandaríski Roots-bassaleikarinn Ethan Jodziewicz flytja Bluegrass og djassblöndu fyrir þessi hljóðfæri. Þorleifur hefur nýlega lokið námi í hinum þekkta Berklee College of Music í Bandaríkjunum á fullum skólastyrk og hlaut þar verðlaun fyrir framúrskarandi árangur. Þorleifur hefur leikið með KK, Kaleo, Tómasi R. Einarssyni og mörgum fleirum innlendum og erlendum tónlistarmönnum. Hann hefur sökkt sér ofan í Bluegrass tónlistina í Bandaríkjunum og ferðast nú um Ísland til að kynna þessa tegund tónlistar fyrir landsmönnum.

Meðleikari Þorleifs í tónleikaferðinni um Ísland er Ethan Jodziewicz sem hefur komið víða við í bandarísku tónlistarlífi og er hann sagður einn fremsti bassaleikari heims á sínu sviði. Ethan spilar með stórum nöfnum í tónlistarheiminum og er um þessar mundir á milli tónleikatúra með Sierra Hull sem hefur hlotið tilnefninu til Grammy verðlauna. Hægt er að hlusta á tóndæmi á Facebókarsíðu Listvinafélags Stykkishólmskirkju.

Dagskrá Listvinafélags Stykkishólmskirkju í sumar verður kynnt nánar síðar, en óhætt er að fullyrða að dagskráin er samsett af tónlist úr öllum áttum og myndlistarsýningar verða tvær í sýningarsal kirkjunnar.