Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Túlipanar í Stykkishólmi


Við Garðaflötina hér í Stykkishólmi búa þau hjónin Clemens og Elsa. Clemens eða Klemmi eins og hann er kallaður kemur frá bænum Roelofarendsveen í suður Hollandi en þau Elsa fluttust hingað í Stykkishólm fyrir nokkrum árum. Elsa vinnur á dvalarheimilinu en Klemmi hjá Póstinum þar sem hann keyrir Snæfellsnesið daglega með vörur fyrir Póstinn. Klemmi ólst upp við það í sínum heimabæ að vinna við túlípanaframleiðslu fjölskyldunnar en í Roelofarendsveen eru ræktaðir um 25% allra túlípana í Hollandi. Hann hefur því sannarlega græna fingur og hófst handa í fyrra með tilraun þar sem hann ræktaði túlípana í bílskúrnum. Það tók aðeins lengri tíma við ræktunarskilyrðin hér, að koma upp laukunum en að jafnaði líða 5-6 vikur frá því að laukurinn er settur af stað og þar til hann blómstrar. En viðtökur í fyrra voru góðar og því pantaði Klemmi 8000 stk af laukum fyrir þetta tímabil frá heimabæ sínum. Hann hófst handa í desember og bauð fyrstu túlípana ársins til sölu í þarsíðustu viku. Hann býður upp á fjórar tegundir lauka, hver öðrum fallegri. Ræktunin fer þannig fram að laukunum er komið til í myrkri í 3 vikur og svo færðir inn í ljós og hlýju og vökvun hefst. Klemmi hefur komið því þannig fyrir að hann býður upp á búnt af 10 túlípönum og framboðið ca. 30-35 búnt á viku. Á fimm daga frestir setur hann nýja lauka af stað og á þannig ný og fersk blóm fram á sumar. Þegar blómin eru skorin af eru laukarnir ekki nýttir aftur. Viðtökur hafa verið mjög góðar og gaman að því þegar kunnáttan fær að njóta sín á nýjum heimaslóðum.

am