Tveir bæjarstjórnarfundir í vikunni

Tveir bæjarstjórnarfundir voru haldnir í vikunni. Sá fyrri var mánudaginn 20. mars sl. og var aðeins eitt mál á dagskrá: Tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar. Höfundur deiliskipulagsins mætti til fundarins og gerði grein fyrir tillögunni.

Þá las bæjarstjóri upp svör við athugasemdum sem borist höfðu um skipulagið.

Alls bárust athugasemdir frá sjö aðilum.

Helst snérust athugasemdirnar um ásýnd nýs húss sem fyrirhugað er að reisa á lóðinni þar sem Amtsbókasafnið stendur núna. Einnig hvort að núverandi hús væri ekki hluti af byggingar- og verslunarsögu bæjarins. Svar bæjarstjórnar var svo að húsið teldist ekki varðveisluvert og að stærð þess og form væri á skjön við fínleika byggðarinnar í kring og að það væri ekki eitt af séreinkennum bæjarins. Vísaði bæjarstjórn í leiðbeiningar frá Húsafriðunarnefnd í svari sínu.

Bréfritarar lýstu yfir áhyggjum af fækkun bílastæða og skorti á bílastæðum fyrir fatlaða. Samkvæmt nýjum tillögum verða bílastæði á miðbæjarsvæðinu 52 talsins. Þá var bílastæði fyrir fatlaða bætt í skipulagið.

Rætt var um torgið fyrir framan lóðina og nýtinguna á því sem hefur ekki verið mikil undanfarið. Það er von höfunda skipulagsins að það nýtist bæjarbúum en athugasemd barst varðandi mænisstefnu hússins sem byggja á við torgið. Þ.e. að framhlið hússins snúi að torginu. Í svari var sagt að stefna hússins rammaði torgið vel inn. Áhyggjur sumra bréfritara voru þær að nýting torgsins yrði takmörkuð vegna hússins sem yrði í einkaeigu og gert yrði ráð fyrir íbúð í því. Bætt var inn í skipulagið að engar íbúðir yrðu leyfðar á neðstu hæðum húsa í skipulaginu. Þær hæðir mætti einungis nota undir hreinlega atvinnustarfsemi.

Reynt er að stuðla að iðandi mannlífi með því að hafa ýmsa atvinnustarfsemi á svæðinu. Í einni fyrirspurn frá minnihlutanum kom fram hvort ekki væri hægt að þrengja ramma um hvers konar atvinnustarfsemi ætti að vera í hverju húsi.

Gerð var athugasemd um söluferlið á Hafnargötu 7 og vísaði bæjarstjórn því á bug og taldi athugasemdina órökstudda.

Að fundi loknum var ákveðið að fresta frekari umræðum og afgreiðslu málsins til næsta fundar.

Á seinni fundinum sem haldinn var degi síðar voru teknar fyrir fundargerðir ýmissa nefnda og ráða. Fresta þurfti umræðum um fundargerð skipulags- og byggingarnefndar vegna bókunar frá L-listanum sem var svohljóðandi: Við undirrituð höfnum því að liður 1. 1703047 – Fundur skipulags og byggingarnefndar nr. 207, dags. 20.3.17 verði tekinn fyrir á fundinum þar sem frestregla 9. gr. samþykkta um stjórn Stykkishólmsbæjar er ekki uppfyllt. Svör við athugasemdum hafa ekki borist okkur og fundargerð skipulags-og byggingarnefndar barst ekki innan tilskilins frests.

Samþykkt var að fresta þeim umræðum til 27. mars.

Tillögur að hugmyndahóp fyrir afmæli leikskólans var samþykktur. Hópinn skipa Ægir Jóhannsson, Ingibjörg Ólafsdóttir, Kristín Ósk Sigurðardóttir, Sigrún Þórsteinsdóttir leikskólastjóri, Elísabet Björgvinsdóttir aðstoðarleikstóri, Hrafnhildur Hallvarðsdóttir formaður skólanefndar, Róbert Jörgensen, Ingunn Höskuldsdóttir formaður foreldraráðs, María Kúld formaður foreldrafélags og Anna Melsteð.

Einnig hefur verið valið í 17. júní nefnd. Þá nefnd skipa þau Eydís Eyþórsdóttir formaður, Kolbrún Ösp Guðrúnardóttir, Heimir Klementsson, Jóna Gréta Guðmundsdóttir, Jón Sindri Emilsson, Sólbjört Gestsdóttir, Þórhildur Hólmgeirsdóttir, Páll Þorbergsson, Jón Þór Eyþórsson og Einar Bergmann.

Í samræmi við fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 gerði bæjarstjóri grein fyrir endurbótum á gangstétt í Hólmgarði ásamt uppsetningu á palli fyrir hátíðahöld.

Tillaga um laun fyrir vinnuskóla árið 2017 var samþykkt auk þess að bjóða 13 ára börnum vinnu í vinnuskólanum.

Að lokum var tilkynning frá Lárusi Hannessyni um fyrirhugaða undirskriftasöfnun vegna skipulagsbreytinga á miðbæ Stykkishólms lögð fram. Bæjarstjóra var falið að fara yfir málið og leggja fyrir bæjarráð til frekari afgreiðslu á grundvelli sveitarstjórnalaga og samþykkta Stykkishólmsbæjar.

Ofangreint er ekki tæmandi listi fyrir dagskrá fundanna, fundagerðir má sem fyrr sjá á vef Stykkishólmsbæjar.