Um ferðaþjónustuna í Stykkishólmi

Ýmislegt hefur verið sagt um ferðaþjónustu bæði á landsvísu ekki síður en hér í Stykkishólmi. Einhverjir hafa haldið því fram að umfang hennar sé meira eða minna en aðrar atvinnugreinar eins og sjávarútvegurinn. Staða greinarinnar hér í Stykkishólmi hefur lítt verið rannsökuð eða mæld í einhverju magni nema þá helst hjá þjónustuaðilunum sjálfum. Nú hefur Rannsóknarmiðstöð ferðamála staðið fyrir framkvæmd ferðavenjukönnunar meðal erlendra gesta á áfangastöðum frá árinu 2013 þar sem aflað er upplýsinga um ferðahegðu og neyslu erlendra gesta yfir sumartímann. Upplýsingarnar gefa m.a. vísbendingu um ástæðu heimsóknar, dvalarlengd gesta, upplifun þeirra og svæðisbundin útgjöld.

Sumarið 2016 var könnunin framkvæmd á sex stöðum landsins m.a í Stykkishólmi. Könnunin var framkvæmd sumarið 2016. Í ljós kom að meðalaldur svarenda var 43 ár og flestir þátttakendur komu frá Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Hlutfall Frakka og Þjóðverja í Stykkishólmi var talsvert hærra en á landsvísu og hlutfall Bandaríkjamanna lægra samkvæmt talningum ferðamanna á Keflavíkurflugvelli. Flestir næsturgestir á Snæfellsnesi komu frá Þýskalandi og Bandaríkjunum. Langflestir þátttakenda voru á ferð með fjölskyldu og vinum eða 85%. Algengast var að gestir ferðuðust tveir saman í um 20% tilvika voru börn undir 18 ára aldri með í för.

Flestir gesta höfðu gist á Snæfellsnesi eða Vesturlandi áður en þeir komu í Hólminn. Flestir ferðuðust áfram um Snæfellsnes eða fóru suður á bóginn til að gista næstu nótt á eftir. Flestir gesta gistu á tjaldsvæðinu eða 37% og um 36% á hótelum og gistiheimilum sem er talsvert hærra en á landsvísu. Meðmæli og fegurð staðarins var ástæða flestra fyrir ferðalagi hingað. Athygli vekur að í flestum tilvika (47%) hafði heimsóknin til Stykkishólms verið ákveðin áður en ferðin til Íslands hófst þar sem flestir höfðu fengið upplýisingar um Stykkishólm hjá ferðaskrifstofum 66%, 22% öfluðu sér upplýsinga í gegnum vefsíður, þessar tölur eru frábrugðnar tölum á landsvísu þar sem 85% höfðu aflað upplýsinga um Ísland á netinu. Langflestir koma hingað á bílaleigubílum 78%. Flestir aðspurðra (84%) höfðu skipulagt ferðina til Stykkishólms sjálfir. Meðaldvalarlengd erlendra gesta í Stykkishólmi var um 12,1 klst. Flestir dvöldu á staðnum í 0-3 klst. eða um 47% gesta.
Flestir ætluðu að fara á veitingahús eða kaffihús meðan á dvöl þeirra í Stykkishólmi stóð eða alls um 58% erlendra gesta. Um helmingur þeirra ætlaði að taka myndir og 42% sögðust ætla í gönguferð. Álíka margir (41%) ætluðu í útsýnisferð og 22% í fuglaskoðun. Heimsóknir á söfn voru algengari eftir því sem aldur gesta hækkaði.

Almennt voru þátttakendur mjög ánægðir (42%) eða ánægðir (44%) með dvöl sína í Stykkishólmi. Á skalanum 1-5 var ánægjustig gesta 4,13. Meiri ánægja virtist vera meðal þeirra gesta sem fóru í gönguferð þar sem ánægjustig þeirra mældist 4,27 til samanburðar við 4,03 meðal þeirra sem fóru ekki. Hjá þeim sem fóru á kaffi- eða veitingahús mældist ánægjan 4,24 til samanburðar við 3,99 meðal þeirra sem fóru ekki.
Alls keyptu 71% þátttakenda veitingar, 12% menningartengda þjónustu, um 15% greiddu fyrir afþreyingu og 34% keyptu vörur í verslunum bæjarins.
Til afþreyingar teljast m.a. bátsferðir, gönguferðir með leiðsögn, hestaferðir, veiði og jeppaferðir. Til menningar teljast m.a. heimsóknir á söfn, gallerí, sýningar og tónleikar. Ef reiknað er með að heildarfjöldi erlendra gesta í Stykkishólmi árið 2016 hafi verið á bilinu 220-240 þúsund má áætla að heildarútgjöld þeirra á svæðinu hafi verið um 1.845 – 2.013 m.kr. árið 2016.

Af þeim sem komu með athugasemdir varðandi dvöl þeirra í Stykkishólmi höfðu 17% ekkert nema gott um heimsókn sína til staðarins að segja. Um 14% svarenda töluðu sérstaklega um fegurð staðarins. Alls gerðu 8% athugasemdir um veitingastaði bæjarins. Þar kom m.a. fram ósk um fleiri sjávarréttastaði og meiri fjölbreytni en einnig var ánægja með það sem fyrir var. Um 8% svarenda gerðu athugasemdir við hátt verðlag og sama hlutfall vildi fá betri upplýsingar og vegvísa fyrir ferðamenn. Um 6% svarenda gerðu athugasemdir við veðrið sem hefði mátt vera betra að þeirra mati og sama hlutfall nefndi bátsferðir þar sem bæði komu fram tillögur að nýjum ferðum og ánægja með þær ferðir sem voru í boði.

Um 5% vildu betri hreinlætisaðstöðu og 4% lengri opnunartíma verslana og annarra þjónustuaðila. Hjá þeim sem höfðu aðrar athugasemdir komu m.a. fram tillögur um að hafa sjónauka í vitanum, ókeypis leiðsögn í gönguferðum um bæinn, sveigjanlegri innskráningartíma á gististöðum og að spila geisladisk með kirkjukórnum í kirkjunni.

Niðurstöður í fullri lengd: http://www.rmf.is/static/research/files/2017-08-18172-stykkisholmur-skyrsla.pdf