Uppbrotsdagar í FSN

Mynd fengin af Facebook-síðu FSN

Vikan sem nú er að klárast hefur verið með óhefðbundnu sniði í Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Um er að ræða svokallaða uppbrotsdaga þar sem nemendur vinna lokaverkefni þvert á áfanga. Þ.e.a.s. verkefnin snúast ekki endilega um einn áfanga hvert, sem dæmi er verkefni í kynjafræði og uppeldisfræði eitt verkefni. Hugmyndin með þessu óhefðbundna fyrirkomulagi í lok annar er enn í þróun en smá reynsla er komin á hana. Nemendur fá með þessu að nálgast viðfangsefni sín frá öðrum hliðum sem e.t.v. dýpkar skilning þeirra á námsefninu.

Meðal þess sem nemendur unnu að er ferð um söguslóðir Eyrbyggju. Svo má nefna kynningarverkefni nemenda í tveimur sálfræðiáföngum. Þar kynna nemendur verkefni um sjálfsmynd og samfélagsmiðla fyrir nemendum í 7.-10. bekk í Grunnskóla Grundarfjarðar.

Það var ákveðið á þessum uppbrotsdögum að hafa meiri samtal á milli þessa þriggja skólastiga sem eru í Grundarfirði (leikskóli, grunnskóli og fjölbrautaskóli). Nemendur í kynjafræði og uppeldisfræði fengu í hendur lista af hugtökum frá kennara sínum, Maríu Kúld, og áttu að semja út frá þeim leikþætti. Leikskólabörn í Grundarfirði fengu svo að sjá nemendur flytja leikþætti sína og gekk það vonum framar. „Ég veit ekki hvor hópurinn skemmti sér betur, leikskólabörnin eða nemendurnir í FSN?” Sagði María í samtali við Stykkishólms-Póstinn. Hún tekur einnig fram að kynjafræði hefur verið í kjarna allra brauta til stúdentsprófs síðan árið 2015.

Uppbrotsdagarnir eru komnir til að vera enda hafa þeir gefið góða raun hingað til þar sem nemendur fá afslappaðra andrúmsloft til að vinna að námsefni sínu.