Upplýsingafundur um grásleppumál

Fundur Landssambands smábátaeigenda(LS) var haldinn á Ráðhúsloftinu s.l. þriðjudag. Var vel mætt á fundinn sem var upplýsingafundur um grásleppumál. Svokölluð MSC vottun sem náði yfir grásleppuna, var afturkölluð í byrjun þessa árs og var það m.a. efni fundarins. Farið var yfir aðferðafræði við endurmat vottunarþátta og sýndi Axel Helgason formaður LS fram á aðferðir þær sem notaðar voru til að meta meðafla í grásleppunet af selum, teistu og skarfa og stofnstærðir út frá því væru gagnrýni verðar. LS hefur gert ítarlegar athugasemdir við aðferðir og mat það sem lagt var til grundvallar á endurnýjaðri vottun en einnig var spurningunni velt upp á fundinum hvort vottun skipti máli fyrir grásleppuveiðarnar eða sölumálin í framhaldinu. Fram kom í máli Axels að stofnstærðir þeirra tegunda sem flokkast sem meðafli við grásleppuveiðar séu gamlar tölur og erfitt að hans mati að fá opinbera aðila eins og Hafró til að gera nýjar rannsóknir til að fá fram nákvæmari tölur.

Í umræðum á fundinum kom fram hörð gagnrýni á vinnubrögð sem viðhöfð voru við eftirlit og talningar vottunaraðilans og spurt hvort ekki þyrfti að setja lög um vottanir? LS hefur sent ráðuneyti sjávarútvegsmála og öðrum þartilbærum yfirvöldum athugasemdir og formlegt erindi vegna þessa. Í máli Axels kom fram að skortur á upplýsingum um stærð teistustofns sé aðalástæða þess að vottun var felld úr gildi en tölur séu ekki áreiðanlegar og auk þess frá árinu 2002. Fram kom á fundinum að grunnforsenda að mati margra fundarmanna væri að leggja yrði í nýjar rannsóknir á stofnstærðum og bregðast síðan við þeim niðurstöðum þegar þær liggja fyrir. Einnig voru uppi hugmyndir um að loka ákveðnum svæðum sem sjómenn legðu sjálfir til þar sem veiðireynsla hefði sýnt fram á meðafla á þessum tegundum. Til er íslensk vottun sem rædd var á fundinum hvort væri heppilegri en TSC vottunin. Skráning sjómanna í afladagbækur kom til umræðu og þurfa þeir sjálfir að bæta úr í þeim málum, það muni of miklu á skráningum sjómanna sjálfra og skráningum eftirlitsmanna í veiðiferðum. Menn höfðu einnig áhyggjur af því að vegna mikils meðafla í grásleppunet í Breiðafirði yrði hann illa úti í aðgerðum því tengdum og jafnvel yrði tekið svo djúpt í árinni að loka firðinum fyrir grásleppuveiðum. Rætt var að fara þyrfti fyrir atvinnumálanefnd Alþingis með þessi mál og vekja athygli þingsins á því.