Upplýsingamiðstöð hefur verið opnuð í Breiðabliki

Nú hefur verið opnuð upplýsingamiðstöð fyrir Snæfellsnes í félagsheimilinu Breiðabliki á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þetta er samvinnuverkefni undir stjórn Svæðisgarðsins
Snæfellsnes. Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja mánaða, undirbúningsverkefni fyrir
Gestastofu Snæfellsness. Að sögn Ragnhildar Sigurðardóttur hjá Svæðisgarði Snæfellsness eru veittar eru upplýsingar um þjónustu, náttúru og menningu á Snæfellsnesi, en líka er verið að safna gögnum, telja gesti sem koma inn á svæðið og athuga hvað þeir vilja vita og á
hvaða tímum þeir koma. „Mikið er spurt um gönguleiðir og fossa og þá bendum við til dæmis á Bjarnarfoss, Svöðufoss og Kirkjufellsfoss, friðlöndin Búðahraun og ströndina milli Arnarstapa og Hellna, þjóðgarðinn Snæfellsjökul, gönguleiðir í nágrenni þéttbýliskjarna, Súgandisey, Helgafell og fleiri náttúruperlur sem búið er að gera aðgengilegar með því að leggja bílastæði, gera göngustíga og fleira.“ segir Ragnhildur.
Á Snæfellsnesi eru fjölmargir aðilar sem sinna margs konar þjónustu við ferðamenn. Hægt er að skoða náttúru og menningu hvort sem er gangandi, ríðandi, í bát eða öðrum vélknúnum ökutækjum, í leikhúsi, söfnum eða á sýningum. Nóg er af veitinga- og gististöðum á svæðinu. „Okkar hlutverk er að kynna þessa aðila, hvetja fólk til að dvelja á Snæfellsnesi og bjóða gesti hjartanlega
velkomna. Unnið er að uppsetningu á öryggismiðstöð Save Travel til að tryggja eftir
megni öryggi ferðamanna. Næstu tvo mánuði verður opið frá kl. 9 – 17 alla daga og kynning er í gangi um Gestastofu Snæfellsness.“ segir Ragnhildur sem hvetur heimamenn ekki síður en ferðalanga að líta við og kynna sér málin. „Við erum að safna upplýsingum, viljum heyra viðbrögð við þeim hugmyndum sem unnið er eftir/hvernig við getum nýtt húsið og útiaðstöðuna sem allra best,“ segir Ragnhildur. „Eins köllum við eftir bæklingum og rafrænu kynningarefni frá ferðaþjónustuaðilum á Snæfellsnesi til að geta kynnt þjónustuna sem best.
Meðfylgjandi teikning sýnir hugmyndir að útfærslu svæðisins, en þær má kynna sér betur
í upplýsingamiðstöðinni.