Upprennandi tónlistarfólk

Astron. Mynd fengin af vef Músíktilrauna

Undanúrslit Músíktilrauna hefjast laugardaginn 25. mars í Norðurljósasal Hörpu. Fjögur undanúrslitakvöld verða dagana 25.-28. mars, úrslitakvöldið fer fram 1. apríl.

Á Músíktilraunum keppa hljómsveitir allsstaðar af landinu. Keppnin er ætluð tónlistarmönnum á aldrinum 13-25 ára og er markmið hennar að búa til stökkpall fyrir ungar og efnilegar hljómsveitir, að skapa vettvang fyrir unnendur tónlistar til að kynnast efnilegu tónlistarfólki, að stuðla að því að fjölmiðlar skapi umræðu um ungt og upprennandi tónlistarfólk og síðast en ekki síst, að hvetja til textagerðar á íslensku.

Hljómsveitin Astron kemur fram á þriðja undanúrslitakvöldinu. Sveitin er sögð vera frá Hellissandi en af liðsmönnum að dæma má segja að hún sé frá Snæfellsnesi. Lena Hulda Örvarsdóttir syngur, Trausti Leó Gunnarsson og Haukur Páll Kristinsson spila á gítar. Auk þess spilar Haukur á trompet. Á bassa er Jón Glúmur Hólmgeirsson og trymbill er Jón Grétar Benjamínsson. Haukur, Jón Glúmur og Jón Grétar eru allir úr Stykkishólmi.

Hægt er að næla sér í miða á undanúrslitin á heimasíðu Músíktilrauna.