Úr fundargerðum Stykkishólmsbæjar

Bæjarstjórn Stykishólmsbæjar fundaði 22. júní sl. og voru mörg mál á dagskrá. Minniháttar breyting á deiliskipulagi Víkurhverfis var samþykkt að tillögu skipulags- og bygginganefndar. Breytingarnar eru svo: „Á Suðvesturhluta deiliskipulagssvæðisins er lóðum og byggingarreitum breytt þar sem komið er fyrir par- og raðhúsalóðum í stað einbýlishúsa. Götur breytast ekki en komið er fyrir hringtorgi við enda botnlangans. Um miðbik skipulagssvæðisins er heimilaður aukin fjöldi íbúða á byggingarreitnum en lóðir og götu eru óbreyttar. Á þremur stöðum er lóðarmörkum breytt til að gera betra pláss fyrir göngustíg með ströndinni. Á uppdrætti stendur nú við hverja lóð hve margar íbúðir er heimilt að byggja á lóðinni.”

Það er augljóst að bæjarbúar eru í framkvæmdahug enda margar umsóknir um breytingar, byggingar, sólpalla o.þ.h.

Þá samþykkir bæjarstjórn einnig viljayfirlýsingu frá safna- og menningarmálanefnd um samstarf á milli Stykkishólmsbæjar og Borgarbyggðar í safnamálum. Hingað til hefur verið samstarf en gott væri að „hafa það í fastara formi” eins og það er orðað í fundargerð.

Safna- og menningarmálanefnd fær nýjan liðsmann, Ingveldur Eyþórsdóttir kemur inn fyrir Önnu Maríu Rafnsdóttur.

Stjórnsýslukæra barst þar sem breytingar á deiliskipulagi miðbæjarins vestan Aðalgötu eru kærðar. Kæran er til umfjöllunnar hjá Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál. Kærandi er Queen Eider sem rekur Æðasetur Íslands. Setrið er staðsett í miðbænum.

Gert var grein fyrir viðræðum við HVE, fulltrúa ráðuneytis og þingmenn vegna reksturs sjúkrahússins, sérstaklega m.t.t. háls- og bakdeildar og uppbyggingar hjúkrunardeildar á bæjarráðsfundi. Lagði bæjarráð þar ríka áherslu á að efla háls- og bakdeildina og að tryggt væri að læknar verði ráðnir bæði að sjúkrahúsinu og heilsugæslulæknar yrðu fastráðnir í stað þess að ráða lækna tímabundið sem verktaka.

Fundargerðina má lesa í heild sinni hér.