Úr fundargerðum Stykkishólmsbæjar

Þrátt fyrir að margir landsmenn séu komnir í sumarfrí snúast hjól stjórnsýslunnar enn. Bæjarráð fundaði nú 11. júlí sl.

Fundargerðir frá skólanefnd voru m.a. á dagskrá þar sem kom fram að 10. bekkur kemur til með að vera í rýminu sem áður hýsti bókasafn skólans sem flyst í nýtt húsnæði í haust.

Af rekstri hafnarinnar er það að frétta að „Mikil og jákvæð breyting hefur átt sér stað með tilkomu aukins straums ferðamanna til Stykkishólms. Skemmtiferðaskipin eru að skapa tekjur sem hafa snúið við rekstri hafnarinnar. Í það heila er rekstrarþróunin jákvæð.”

Auknum straumi fylgir þó meira álag á salernisaðstöðu og sorpílát. Hafnarstjóri segir stefnt að því að auka gjaldtöku til að auka tekjur af ferðaþjónustu á hafnarsvæði.

Ýmis erindi voru til kynningar s.s. þess efnis að Landsfundur um jafnréttismál verði haldinn í Stykkishólmi 15. september.

Sem fyrr má lesa fundargerðina í heild sinni á vef Stykkishólmsbæjar.