Útgáfu fagnað

„Hljómsveitin Þrír blæs til útgáfutónleika í tilefni nýútgefinnar plötu sinnar, Allt er þegar Þrír er, næstkomandi sunnudag, þann 2. júlí klukkan 16:00 á Sjávarpakkhúsinu í Stykkishólmi. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir. Gleði. Vínylplötur og geisladiskar eins og þú getur í þig látið. Ef að vel viðrar verður tónleikurinn um borð í Marflónni.”

Svona hljómar tilkynning frá hljómsveitinni sem var að gefa út plötu, bæði á geisladisk og vínyl. Auk þess er hún aðgengileg á streymisveitunni Spotify.

Hljómsveitina Þrír skipa þau Jón Trausti Arason, Sigurbjörg Jósepsdóttir og Þórdís Claessen.

Platan var lengi að fæðast en hún var að mestu tekin upp á vormánuðum árið 2015. Í vetur hófst hópfjármögnun til að safna fyrir útgáfunni og gat fólk lagt til pening, í staðinn fengu þeir sem greiddu allt frá knúsi frá hljómsveitinni til áritaðra platna.

Mikil stemning hefur myndast á tónleikum sveitarinnar og má teljast líklegt að enginn verði svikinn um góða skemmtun á sunnudag.