Veitingahús verður til í Viðvík

Hjónin Kristín Gilsfjörð og Sigurður V. Sigurðsson ásamt sonum sínum Gils Þorra og Magnúsi Darra og tengdadætrum Anítu Rut og Helgu hafa staðið í ströngu undanfarið við að undirbúa opnun veitingastaðar á Hellissandi. Mun staðurinn fá nafnið Viðvík sem er sama nafn og húsið sem hann verður í.

Aðspurð um hvernig hug­myndin að veitingastað þarna hafi komið sagði Kristín að hún hefði fæðst við eldhúsborðið heima hjá þeim. Gils Þorri sonur þeirra er menntaður kokkur og tengdadæturnar lengi starfað við þjónustustörf. Kom þá upp þessi hugmynd af hverju ekki að setja bara upp veitingastað, skapa sér eitthvað nýtt að gera á þessum stað. Fóru þau þá af stað að leita að húsnæði, leist þeim mjög vel á staðinn en nýi veitingastaðurinn er staðsettur við þjóðveginn á leið frá Hellissandi í gömlu og skemmtilegu húsi með frábæru útsýni til Snæfellsjökuls, yfir Breiðafjörð og Krossavíkina.

Hafa þau tekið húsið allt í gegn bæði innan og utan en það var verr farið en þau héldu þegar þau byrjuðu og bættist ýmislegt við. Einnig var bætt við húsið 25 fermetra viðbyggingu sem hýsir eldhúsið. Veitingastaðurinn mun taka um það bil 40 manns í sæti og verður aðaláherslan á góðan mat í notalegu umhverfi. Vonast fjölskyldan til að þau geti opnað veitingastaðinn í einhvertíma í júlímánuði.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli