Vel gerðir mislitir sokkar


Leikfélagið Grímnir frumsýndi s.l. föstudag leikrit Arnmundar Backman „Maður í mislitum sokkum“ í sal Tónlistarskóla Stykkishólms. Sviði, áhorfendabekkjum og leikmynd hefur verið haganlega fyrir komið í salnum og kemur vel út. Um er að ræða gamanleikrit sem gerist á heimili Steindóru sem er komin vel á aldur og atburði sem áhrif hafa á hennar líf og nágranna hennar, sem allir eru á svipuðu reki. Það eru ungir og efnilegir leikarar sem margir hverjir stíga þarna í fyrsta sinn á stokk í leikverki hjá Grímni og takast á við krefjandi hlutverk í verkinu. Bjarki Hjörleifsson leikstýrir hópnum með myndarbrag. Vel hefur tekist til því gestir hlæja mikið á meðan á sýningu stendur og viðbrögðin hafi ekki látið standa á sér á samfélagsmiðlunum í kjölfarið. Aðeins verða nokkrar sýningar í viðbót og eru bæjarbúar hvattir til að drífa sig á staðinn – alltaf gott að hlæja!

am/frettir@snaefellingar.is