Vel mætt á fyrirlestraröð NSV

Metaðsókn var á fyrirlestur Róberts A. Stefánssonar í fyrirlestraröð Náttúrustofu Vesturlands sl. mánudag. Í erindi sínu fjallaði Róbert um sveiflur í íslenska minkastofninum og ástæður þeirra. Minkurinn er innflutt, ágeng tegund sem hefur talsverð áhrif á lífríki Íslands.

Fyrirlestrarnir fara fram á Ráðhúsloftinu og var þetta sá fjórði í röðinni. Áheyrendur komu víðsvegar að og var áhugi á efninu mikill. Að erindi loknu spjölluðu gestir um efni fyrirlestursins og var augljóst að minkurinn er mörgum hugðarefni.

Það er ljóst að fyrirlestraröð NSV er vinsæl meðal íbúa og má segja að hún hafi slegið í gegn. Frítt er inn á fyrirlestrana og eru allir velkomnir. Þeir fjalla um sérstök viðfangsefni sem öll eiga það sameiginlegt að snúa að náttúru Íslands. Hægt er að sjá dagskrá fyrirlestraraðarinnar á heima síðu Náttúrustofunnar (nsv.is), Facebook-síðu fyrirlestraraðarinnar og undir viðburðum á Snæfellingar.is

Næsti fyrirlestur verður þriðjudaginn 28. mars og ber hann heitið „Hvernig hreiðrað skal um sig?”. Hann verður í umsjón Jóns Einars Jónssonar frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi og fjallar um hvernig fuglar velja sér hreiðurstæði. Áhugafólk um íslenska náttúru er hvatt til þess að nýta sér boðin á fundina og hlýða á áhugaverð erindi.