Vélaverkfræði í Grunnskólanum (?)

Mynd: Gunnlaugur Smárason

Það er ekki alltaf hefðbundið bóknám sem nemendur í Grunnskólanum í Stykkishólmi stunda í kennslustundum. Hægt er að læra á umhverfið með ótal öðrum leiðum.

Nemendur í 10. bekk settu í gang svokallaðar Rube Goldberg vélar sem þau höfðu smíðað í vikunni. Vélarnar eru einskonar brautir sem leiða hluti áfram að lokatakmarki. Ein brautin átti t.a.m. að spæla egg eftir að togað hafði verið í spotta, sem setti af stað kúlu sem rann á kubba sem hver af öðrum féll niður og setti aðra kúlu af stað niður braut í átt að kerti. Kertið rúllaði áfram á spýtu sem felldi eggið niður á heita pönnu. Nemendur nýttu alfarið hráefni sem til var í skólanum við gerð brautanna s.s. kennaratyggjó, klósettrúllur, bækur og kubba.

Alls voru þrjár brautir gerðar og virkuðu þær með ágætum. Gunnlaugur Smárason, kennari nemendanna, tjáði viðstöddum að allar brautirnar hefðu virkað þó þær hefðu ekki verið 100% í lagi á sýningunni. Það sannaðist í annarri tilraun.

Nemendur lærðu mikið af verkefninu, m.a. samvinnu og sjálfstæð vinnubrögð, úrlausn og útsjónarsemi og þau fengu að sjá eðlisfræðina í verki.