Vélhjólaklúbbur hjólar af stað

Meðlimir Griðunga, vélhjólaklúbbs á Snæfellsnesi, hittust 4. apríl sl. Tilgangur fundarins var að hrista saman hópinn fyrir komandi sumar. Því miður var færðin þannig þennan dag að félagsmenn gátu ekki mætt á stálfákunum á fundinn. Það skipti nú ekki öllu máli þar sem ætlunin var að hittast yfir kaffi og spjalla. Um tíu meðlimir mættu og skiptust á ferðasögum og ráðum um umhirðu hjólanna. Eins og gefur að skilja þegar menn með brennheitan áhuga á þessum efnum mætast var eitthvað um meting og grín en allt vissulega í góðu gamni.

Aðalfundur verður haldinn síðar í vor.

„Við hittumst mánaðarlega með nokkurra mánaða millibili” sagði Gretar D. Pálson þegar fréttaritari spurði hversu oft hópurinn hittist.

Nú þegar fer að vora má því búast við að sjá meðlimi Griðunga ferðast um götur landsins með sprengihreyfil á milli læranna. Jafnvel utan landsteina.