Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Velkomin á Danska daga!

Fjölskyldu- og bæjarhátíðin Danskir dagar verður haldin í Stykkishólmi um helgina, en í ár eru 24 ár frá því að hátíðin var fyrst haldin og er hátíðin því ein af rótgrónustu og elstu bæjarhátíðum landsins. Hátíðin glæðir bæinn lífi og má greina hvíta og rauða lit danska þjóðfánans Dannebrog hvert sem augað eygir.

Upphaflega var hátíðin haldin í júlí en annað árið sem hátíðin var haldin tók Efling við keflinu og var hátíðin færð til þriðju helgarinnar í ágúst, m.a. til þess að lengja ferðamannatímann. Hefur sú tímasetning haldist síðan. Það hefur ýmislegt verið prófað með Danska daga en undirstaðan og botninn er sá að Hólmarar nýti þennan vettvang til þess að hittast. Hátíðin hefur verið stór í sniðum og smá, en tilgangur hennar eins og uppleggið er í dag er ekki síst sá að búa Hólmurum aðstæður til þess að koma saman og eiga góðar stundir með ættingjum, vinum og kunningjum. Þá hefur verið virkilega ánægjulegt hversu duglegir brottfluttir Hólmarar hafa verið að sækja hátíðina og er tilvalið að nota tækifærið sem gefst á Dönskum dögum til þess að rifja upp gömul kynni. Bæjarfélagið er eins og ein stór fjölskylda og þetta er fullkominn vettvangur fyrir þessa stór- stórfjölskyldu til að rifja upp gömul kynni og treysta vinabönd.

Dagskráin verður fjölbreytt að vanda og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, ungir sem aldnir. Menningarviðburðir á borð við tónleika í Vatnasafninu á fimmtudagskvöld, bíósýningar í Eldfjallasafninu og einleik á föstudag, fótboltaleiki á Stykkishólmsvelli á föstudeginum, auk þess sem heilmikið verður um að vera á söfnunum alla helgina. Þá verður ball í Reiðskemmunni á föstudagskvöld og hið hefðbundna bryggjuball á laugardagskvöld að loknu hverfagrillinu, sem nú verður á laugardegi, og loks annað ball í Íþrótthúsinu aðfaranótt sunnudags. Fyrir börnin, og þá sem eru ungir í anda, má þá nefna menningarsmiðju á Amtsbókasafninu, dorgveiðikeppni, búningahlaup, tilraunir á Eldfjallasafninu, froðurennibraut og margt fleira. Fyrir þá sem vilja svo hreyfa sig er boðið upp á opna æfingu í Body Balance á laugardag og fjallgöngu á sunnudag. Hér næ ég aðeins að taka saman lítið brot af dagskránni sem er með allra glæsilegasta móti þetta árið.

Ég vil þakka öllum sem komið hafa að undirbúningi og skipulagningu hátíðarinnar, en þungan af  skipulagningunni hafa borið starfsfólk safnanna hér í Hólminum þau Hjördís Pálsdóttir, Sigurður Grétar Jónasson, Nanna Guðmundsdóttir ásamt Gretu Maríu Árnadóttur. Þá vil ég þakka þeim fjölmörgu styrktaraðilum, sjálfboðaliðum og starfsmönnum bæjarins sem lögðu sitt af mörkum til hátíðarinnar.

Ég býð alla hjartanlega velkomna til Stykkishólms um helgina og vona að hátíðin verði sem ánægjulegust fyrir alla og að allir komist heilir heim.

Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri