Vinkonufundur í Röst


Kvenfélag Hellissands hélt vinkonufund í félagsheimilinu Röst síðastliðið mánudagskvöld. Buðu þær einnig á fundinn kvenfélagskonum í Kvenfélagi Ólafsvíkur og vinkonum þeirra. Vel var mætt en um 80 kvenfélagskonur og vinkonur þeirra mættu og áttu skemmtilegt kvöld. Boðið var upp á dýrindis fiskisúpu, brauð og meðlæti ásamt marengs og súkkulaðitertum í eftirrétt. Þema kvöldsins var hatta og/eða hárskraut og vakti það mikla lukku. Dregin var út kona kvöldsins, gestur kvöldsins og verðlaun voru veitt fyrir hatt kvöldsins. Það voru þeir Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson sem völdu hatt kvöldsins en þeir sáu um að skemmta. Höfðu þeir Albert og Bergþór með sér ferðafélaga en faðir Bergþórs, Páll Bergþórsson kom með þeim. Ræddu þeir Albert og Bergþór um borðsiði og ýmislegt tengt því að vera í veislum, sögðu þeir einnig skemmtilega frá og vöktu mikla kátínu. Áður en þeir félagar kvöddu sáu þeir um að draga út í happadrætti sem þær stöllur í Kvenfélagi Hellissands stóðu fyrir með miklum myndarbrag. Voru vinningarnir veglegir og vöktu mikla lukku. Heppnaðist kvöldið hið besta og enda vel sótt eins og áður segir og vonandi verður áframhalda á svona skemmtunum hjá kvenfélögunum.

þa